Beata Joó kennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar var valin bæjarlistarmaður Ísafjarðarbæjar síðastliðinn laugardag. Það er vel við hæfi að vitna í orð fyrrverandi skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar hennar Sigríðar Ragnarsdóttur um val Ísafjarðarbæjar á bæjarlistamanni þetta árið.

Beáta hefur verið kennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar í meira en þrjá áratugi og hafa margir nemendur hennar gert tónlist að atvinnu sinni við góðan orðstír. Hún hefur verið óþreytandi við að hvetja þau áfram, örva sköpunargáfu þeirra, móta sjálfsímynd þeirra á sem jákvæðastan hátt. Mörg þeirra hafa náð afar langt í tónlistarkeppnum á landslvísu, nú síðastiðið vor hlaut einn nemenda hennar Nótuverðlaunin fyrir bestan árangur á uppskeruhátíð tónlistarskólanna í Eldborg. Beata hefur verið ákaflega öflug í kórstarfi á bænum, í kirkjunni, kórum Tónlistarskóla Ísafjarðar, Sunnukórnum, karlakórnum, Hlífarkórnum og fleiri kórum. Hún var organisti um árabil á Ísafirði, Hnífsdal og Súðavík. Hún var tónlistarstjóri í söngleikjasýningum skólans, Eldmeynni, Oliver og Söngvaseið og í fyrravetur stjórnaði hún tónlistinni í Konungi ljónanna. Beáta hefur verið undirleikari með söngvurum, hljóðfæraleikurum og nemendum og ekki má gleyma stjórn hennar á nokkrum merkustu tónlistarviðburðum sem hafa farið fram á Isafirði þar sem hún æfði Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar til að flytja stór kórverk með sinfóníuhljómsveit, fyrst Messías, svo óratóríur eftir Bach, Sálumessu Mozarts og Gloriu eftir Poulenc. Á einhvern óskiljanlegan hátt hefur þessi dásamlega kona frá hinum heitu sléttum Ungverjalands hrifið Vestfirðinga með sér í öll þessi stórkostlegu tónlistarævintýri“.

Í rökstuðningi atvinnu- og menningarmálanefndar fyrir valinu á bæjarlistamanni segir um Beötu:

Beata fluttist til Ísafjarðar 1986 til að gegna organistastöðu við Ísafjarðarkirkju í eitt ár en ílengdist og hefur búið þar síðan. Óhætt er að segja að Beata hefur auðgað menningarlíf Ísafjarðar verulega. Fljótlega eftir komu hennar hóf hún kennslu við Tónlistarskóla Ísafjarðar þar sem hún starfar enn. Beata stjórnaði Sunnukórnum til fjölda ára, einnig Karlakórnum Erni og Kvennakór Ísafjarðar, en hún mun á vetri komanda taka upp þráðinn með Karlakórnum og Kvennakórnum.  Hún hefur einnig stjórnað og undirbúið Hátíðarkór Tónlistarskólans í stórum verkefnum s.s. Messias e. Händel, Requiem e. Mozart, Bach tónleikum sem flutt voru með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Gloriu e. Poulenc sem var flutt með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur farið í fjölmargar söngferðir með kórum sínum bæði innanlands og utan og ávallt við góðan orðstír.

Hún er feiknagóður kórstjóri enda hefur hún verið fengin til að kenna kórstjórn við Tónlistarskóla Ísafjarðar í samvinnu Tónskóla þjóðkirkjunnar/Listaháskóla Íslands. Hún hefur náð frábærum árangri með nemendur sína í Tónlistarskóla Ísafjarðar enda afskaplega samviskusamur og hugmyndaríkur kennari. Hún hefur ávallt lagt ómælda vinnu í kennslu sína til farsældar fyrir nemendur sína. Hún hvetur þá áfram í námi og hefur fylgt þeim í ótalmargar keppnir þar sem oftar en ekki þeir hafa komið heim með verðlaun og viðurkenningar og þar með aukið hróður Tónlistarskóla Ísafjarðar og um leið haldið á lofti nafni Ísafjarðarbæjar sem tónlistarbæjar. Skemmst er að minnast þegar Pétur Ernir Svavarsson nemandi hennar hlaut aðalverðlaun Nótunnar, uppskeruhátíðar tónlistarskólanna 2018, í apríl síðastliðnum. Hún er sá kennari sem útskrifað hefur flesta nemendur úr framhaldsstigi og margir þeirra hafa haldið áfram tónlistarnámi sínu og eru tónlistarfólk og/eða kennarar í dag.

Auk alls framangreinds hefur hún verið tónlistarstjóri í stórum verkefnum Tónlistarskóla Ísafjarðar, eins og Söngvaseið sem var samstarfsverkefni tónlistarskólans og Litla Leikklúbbsins. Sýning var valin áhugamannasýning ársins 2003, en sýningar voru 24 á Ísafirði og 3 í Þjóðleikhúsinu. Einnig var hún tónlistarstjóri í Lion King sem sett var upp síðastliðinn vetur og var það samstarfsverkefni Leikfélags Menntaskóla Ísafjarðar og Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Við samstarfsfólk Beu óskum henni innilega til hamingju og erum afar stolt að því að starfa með jafn frábærum og góðum kennara