Hljóðfæranám

Tréblásturshljóðfæri

Kennt er eftir aðalnámskrá tónlistarskóla og nemendur byrja að sækja tónfræðitíma um 9 ára aldur.
Í hópi tréblásturshljóðfæra sem draga nafn sitt á því að hafa munnstykki úr tré er kennt á eftirtalin hljóðfæri við Tónlistarskóla Ísafjarðar:

Blokkflauta

Algengt er að nemendur hefji nám á blokkflautu 6 – 7 ára gamlir. Blokkflautan er mjög hentugt hljóðfæri fyrir þá sem eru að byrja hljóðfæranám.
Blokkflautur eru til í ýmsum stærðum og gerðum en sópran blokkflauta er algengust og sú sem er oftast byrjað að læra á. Aðrar flautur eru sópranínó-, alt-, tenór- og bassablokkflautur. Gott er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum. Blokkflautunámið fer fram í einkatímum en nemendur fá einnig tækifæri til þess að taka þátt í samspili.

Klarínetta

Algengast er að nemendur hefji klarínettunám á aldrinum 8 -10 ára. Klarínetta er svolítið sérstök að því leyti að hún getur spilað djúpa tóna, og spilað með djúpu hljóðfærunum í hljómsveitinni, og svo getur hún spilað bjarta tóna með flautunum. Til eru fjölmargar tegundir. Algengastar eru Bb-klarínettur (venjuleg klarínetta), A-klarínetta, bassaklarínetta og es-klarínetta. Mun fleiri týpur eru til. Yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum. Klarínettunámið skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með Lúðrasveit Tónlistarskólans, en að auki fá nemendur tækifæri til að spila í minni samspilshópum.

Saxófónn

Algengast er að nemendur hefji saxófónnám á aldrinum 8-10 ára. Saxófónn er reyndar búinn til úr málmi, en vegna þess að tónmyndun saxófóns er mjög lík tónmyndun klarínettunnar fær hann að vera með tréblásturshljóðfærunum.. Algengastir eru þessir fjórir saxófónar, sópransaxófónn, altsaxófónn, tenórsaxófónn og barítónsaxófónn. Skólinn útvegar hljóðfæri fyrstu árin en yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Saxófónnámið skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með Lúðrasveit Tónlistarskólans á Ísafirði. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum.

Þverflauta

Algengt er að nemendur hefji þverflautunám 8 – 10 ára gamlir. Það getur reynst erfitt að byrja fyrr því fyrir yngri nemendur getur verið erfitt að halda á þverflautunni. Í þverflautufjölskyldunni eru fjórar þverflautur: piccoloflauta, c-flauta (venjuleg flauta), altflauta í g og bassaflauta í c. Fleiri þverflautur eru til, en þær eru afar sjaldgæfar. Þverflautunámið skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með Lúðrasveit Tónlistarskólans. Gott er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum.

Málmblásturshljóðfæri

Kennt er eftir aðalnámskrá tónlistarskóla og nemendur byrja að sækja tónfræðitíma þegar kennarar telja það tímabært. Í hópi málmblásturshljóðfæra sem draga nafn sitt á því að hafa munnstykki úr málmi er kennt á eftirtalin hljóðfæri við Tónlistarskóla Ísafjarðar:

Barítónhorn

Algengast er að nemendur hefji barítónnám á aldrinum 8-10 ára. Barítónhorn gegnir veigamiklu hlutverki í ýmiskonar hljómsveitum, svo sem lúðrasveitum og brassböndum. Oft byrja ungir nemendur sem stefna á túbuleik á því að spila á barítónhorn á meðan þeir þjálfa upp lungun og stækka aðeins. Barítónhornið spilar djúpa tóna, en flinkir spilarar geta náð upp á miðtónana. Skólinn útvegar hljóðfæri fyrstu árin en yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum. Barítónhornnámið skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar en að auki fá nemendur tækifæri til að spila í minni samspilshópum.

Básúna

Algengast er að nemendur hefji básúnunám á aldrinum 8-10 ára. Tenór-básúnan er lang algengust og er hún það hljóðfæri sem flestir byrja að læra á .Básúnan gegnir veigamiklu hlutverki í mörgum hljómsveitum, svo sem sinfóníuhljómsveitum, stórsveitum, lúðrasveitum og djasshljómsveitum. Básúnan spilar aðallega djúpa tóna, en flinkir spilarar geta líka spilað bjarta tóna. Tónlistarskólinn útvegar hljóðfæri til nemenda sinna fyrstu árin en yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum. Básúnunámið skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með Lúðrasveit Tónlistarskólans á Ísafirði en að auki fá nemendur tækifæri til að spila í minni samspilshópum.

Horn

Algengast er að nemendur hefji nám á hornið á aldrinum 8-10 ára. Horn koma í nokkrum mismunandi útgáfum. Algengt er að nemendur byrji að spila á alt-horn. Það líkist barítónhorninu í lögun, en er svolítið minna. Tónlistarskólinn leigir út hljóðfæri til nemenda sinna fyrstu árin en yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum. Hornnámið skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar, en að auki fá nemendur tækifæri til að spila í minni samspilshópum.

Trompet

Algengast er að nemendur hefji nám á trompet á aldreinum 8 – 10 ára. Til eru nokkrar gerðir trompeta. Algengastar eru trompet og kornett. Kornettinn er styttri en trompetinn og kornett-tónninn er örlítið mýkri. Kornett er tilvalið fyrir byrjendur. B- Trompet er algengastur og hentar vel fyrir byrjendur. Aðrar týpur eru flugelhorn sem er stærri og vasatrompet sem er mun minni. Pikkolótrompetinn er minnstur og hann spilar bjartari tóna. Tónlistarskólinn útvegar hljóðfæri til nemenda sinna fyrstu árin en yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum. Trompetnámið skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með Lúðrasveit Tónlistarskólans á Ísafirði, en að auki fá nemendur tækifæri til að spila í minni samspilshópum.

Túba

Algengast er að túbunám hefjist við 10 – 12 ára aldur. Ungir nemendur byrja yfirleitt á að spila á annað og minna málmblásturshljóðfæri. Túban er stórt hljóðfæri, svo að túbuleikarinn þarf að vera nokkuð stór til þess að geta haldið á henni og það þarf mikið loft til að spila á túbu. Tónlistarskólinn útvegar hljóðfæri til nemenda sinna fyrstu árin en yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum.Túbunámið skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með Lúðrasveit Tónlistarskólans á Ísafirði, en að auki fá nemendur tækifæri til að spila í minni samspilshópum.

Strengjahljóðfæri

Kennt er eftir aðalnámskrá tónlistarskólanna og nemendur byrja að sækja tónfræðitíma þegar kennarar telja það tímabært.

Klassískt nám

Fiðla

Algengt er að fiðlunám geti hafist við 6 ára aldurinn. Tekið er tillit til að stærð hljóðfærisins hæfi líkamsþroska nemandans, stærð fiðlu og boga sé í réttum hlutföllum og að hvort tveggja sé í góðu ástandi. Tónlistarskólinn leigir út hljóðfæri til nemenda sinna fyrstu árin en yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum.Fiðluleikarar þurfa að hafa sérlega gott tóneyra og vera mjög nákvæmir af því að á fiðluhálsinum eru engin merki um hvar á að setja fingurna, eins og t.d. á gítar. Það þarf þolinmæði til þess að læra á fiðlu og það tekur oft langan tíma að ná fallegum tóni. Starfandi við Tónlistarskóla Ísafjarðar er strengjasveit sem kemur saman við ýmis tilefni t.d í samspilshópum og á tónleikum og viðburðum við skólann sem og utan hans.

Víóla (lágfiðla)

Nemendur byrja oftast á því að læra á fiðlu og skipta síðar í víóluna þegar þeir hafa náð þeirri tækni sem krafist er að loknu grunnnámi í fiðlu. Víólan er bæði stærri og þyngri en fiðlan. Að öðru leyti gildir það sama um víóluna og fiðlunám. Tónlistarskólinn leigir hljóðfærið til nemanda sinna fyrstu árin.

Gítar: Rytmískt & klassískt nám

Aðalnámskrá tónlistarskólanna í gítarleik skiptist í tvær brautir: klassíska og rytmíska. Ef vafi leikur á því hvort nemendur hafi frekar áhuga á klassísku eða rytmísku námi er gott að skoða málið í samráði við kennara. Kennt er eftir aðalnámskrá Tónlistarskólanna og hefja nemendur nám í tónfræði þegar kennarar telja það tímabært.
Byrjendur byrja gjarnan á að læra á klassískan gítar vegna þess að á honum eru nælonstrengir sem er mun þægilegra að spila á en stálstrengi. Nemendur geta í sumum tilfellum byrjað að stunda klassískt gítarnám í tónlistarskólanum allt niður í 6 ára. Mikilvægt er að stærð hljóðfæris hæfi líkamsþroska nemandans og sé í góðu ástandi. 6-10 ára nemendur spila á ½ gítara, sem er minnsta stærðin og síðar á ¾ gítara sem henta nemendum allt frá 8-15 ára. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum.
Nemendur geta hafið rytmískt gítarnám í tónlistarskólanum á aldrinum 8-10 ára. Mikilvægt er að stærð hljóðfæris hæfi líkamsþroska nemandans og sé í góðu ástandi. Til eru rafgítarar í barnastærð en flestir nemendur geta notað venjulegan rafgítar frá um það bil 10 ára aldri. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum.
Nám í klassíkum og rytmískum gítar fer fram í einkatímum, en að auki fá nemendur ýmis tækifæri til að taka þátt í samspili.

Rafbassi

Kennt er eftir aðalnámskrá tónlistarskólanna og nemendur hefja nám í tónfræði þegar kennarar telja það tímabært.
Algengt er að nemendur hefji rafbassanám á aldrinum 8-10 ára. Mikilvægt er að stærð hljóðfæris hæfi líkamsþroska nemandans og sé í góðu ástandi. Til eru rafbassar í barnastærð en flestir nemendur geta notað venjulegan rafbassa frá um það bil 10 ára aldri. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum.
Nám á rafbassa fer fram í einkatímum, en að auki fá nemendur ýmis tækifæri til að taka þátt í samspili.

Hljómborðshljóðfæri

Píanó

Kennt er eftir aðalnámskrá tónlistarskólanna og hefja nemendur nám í tónfræði þegar kennarar telja það vera tímabært.

Algengast er að nemendur hefji píanónám við 6 ára aldur. Píanóið er vinsælt hljóðfæri. Til eru tvær megingerðir af píanóum, flygill og upprétt píanó. Nauðsynlegt er að nemendur hafi aðgang að píanói til æfinga heima fyrir ásamt píanóstól við hæfi. Þá er miklvægt að hljóðfærið sé vel stillt og staðsett þar sem nemandi getur haft gott næði til æfinga. Fótskemill er æskilegur fyrir yngstu nemendurna. Rafmagnspíanó geta verið góður og ódýr kostur fyrir nemendur sem eru að hefja nám, en mikilvægt er að lengra komnir nemendur geti æft sig á hefðbundið píanó. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum. Píanónámið fer fram í einkatímum, en að auki fá nemendur ýmis tækifæri til samspils.

Harmonika

Algengast er að nemendur hefji harmonikunám á aldrinum 9-10 ára. Harmonikan samanstendur af hljómborði, bassa og belg. Ýmsar stærðir og gerðir eru til af harmonikum og eru þær ýmist með hljómbassa eða tónbassa. Harmonikan á sér tiltölulega skamma sögu í íslenskum tónlistarskólum þó hún hafi notið mikilla vinsælda til sjávar og sveita í danstónlist. Tónlistarskólinn útvegar nemendum sínum hljóðfærið.

Ásláttarhljóðfæri

Trommur & Slagverk

Kennt er samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskólanna og hefja nemendur nám í tónfræði þegar kennari telur það tímabært.

Algengt er að nám á trommusett hefjist á aldrinum 8-9 ára. Til að nám geti hafist á trommusett þarf nemandi að hafa líkamlega burði til að valda auðveldlega trommukjuðum og ná til gólfs þegar setið er á trommustól. Í grunnnámi á trommusett er gert ráð fyrir að nemendur nái að auki tökum á algengustu slagverkshljóðfærum, s.s. hristum, tambúrínum og handtrommum. Þegar líður á námið er gott að nemendur hafa til umráða trommusett. Rafmagns- og æfinga-trommusett geta hentað vel til heimaæfinga, en mikilvægt er að nemendur öðlist einnig reynslu í leik á hefðbundið trommusett. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum. Nám á trommusett fer fram í einkatímum, en að auki fá nemendur ýmis tækifæri til samspils og að spila með Lúðrasveit Tónlistarskólans í ýmsum tilfallandi verkefnum hennar.
Trommur eru elstu hljóðfæri í heimi. Upprunaleg bygging þeirra hefur haldist nær óbreytt en þær voru upphaflega notaðar af trúarlegum ástæðum eða í orrustum. Trommusett er safn slagverkshljóðfæra sem raðað er upp á þægilegan hátt þannig að einn hljóðfæraleikari geti leikið á þau öll samtímis. Grunntrommusett samanstendur af bassatrommu, sneriltrommu, málmgjöllum og pákum.