Tónfræðigreinar

Tónfræði

Kennt er eftir aðalnámskrá tónlistarskólanna
Tónfræðanám hefur það að markmiði að auka tónnæmi, þekkingu og skilning nemenda á innri gerð tónlistar sem og að þeir öðlist færni til að fást við fjölbreytileg viðfangsefni í tónlist. Einnig á námið að stuðla að því að nemendur þroski með sér sjálfstæð viðhorf til tónlistar.
Í grunnáfanga tónfræðanáms er gert ráð fyrir samþættri kennslu tónfræðagreina þar sem inntak einstakra greina fléttast með ýmsum hætti smana við margvíslega virkniþætti, svo sem hljóðfæraleik, söng, hreyfingu, lestur, skráningu, hlustun, greiningu og sköpun.
Í miðnámi verða viðfangsefnin umfangsmeiri og sérhæfðari. Námið krefst meiri tíma en áður og áhugi nemenda skiptir sköpum um framvindu og góðan námsárangur. Viðfangsefnin eru hin sömu og í grunnnámi en þekking og færni eykst verulega á öllum sviðum.
Í framhaldsnámi er viðamesti áfangi almenns tónlistarnáms. Gert er ráð fyrir að góðir nemendur sem ljúka framhaldsprófi séu hæfir til að takast á við tónlistarnám á háskólastigi, hér á landi eða erlendis. Í framhaldsnámi skiptist tónfræðanám í kjarnagreinar og valgrein. Megináhersla er lögð á kjarnagreinar en þær eru hljómfræði, tónheyrn og tónlistarsaga.

Tónheyrn

Fjölbreytt heyrnarþjálfun fléttist inn í alla virkniþætti tónfræðanámsins. Markmiðið er að frá upphafi verði leitast við að þroska almennt tónnæmi og leggja traustan grunn undir tónminni, lestur, greiningu og skráningu síðar á námsferlinum.

Tónlistarsaga

Í grunn- og miðnámi er miðað við að tónlistarsaga fléttist inn í ýmsa virkniþætti og þannig kynnist nemendur afmörkuðum þáttum tónlistarsögunnar, s.s einstökum tónskáldum, stefnum og stílum.

Tónlistarsaga á framhaldsstigi er kennd í fjarkennslu skv. aðalnámsskrá. Kennari er Sigfríður Björnsdóttir.

Hlustun og greining

Með hlustun er lagður grunnur að öllum þáttum tónlistarnáms og er hún því óhjákvæmilega þungamiðja í tónlistaruppeldi. Nemendur læra með því að hlusta og líkja eftir, auk þess sem hlustun er forsenda þess að nemendur geti tjáð sig, greint, metið og túlkað tónlist.

Hlustun og greining – hraðferð

Hraðferðin er ætluð nemendum á aldrinum 15-20 ára. Námið er tvískipt og kennt í tveimur lotum, HLG1 á haustönn og HLG2 á vorönn. Kennt er 2x í viku í 2. klst í senn í sex vikur en samhliða námsefninu vinna nemenendur Opus 3 heima. Nemendur þurfa að hafa stundað nám á hljóðfæri sitt í a.m.k eitt ár áður en þáttaka er möguleg. Ástæða þess er sú að nemandinn þarf lengri þjálfun í tónheyrnar og hrynþáttum námsins. Heimavinnu er krafist í hraðferðinni en áður en námið byrjar formlega, þurfa nemendur að vera búnir að hlaða niður tónlistaröppum (upplýsingar hjá kennara) og kynna sér þau lítillega áður en kennsla hefst. Einnig fá þeir DVD diska til þess að geta unnið sér í haginn fyrir hvern tíma. Nákvæm tímasetning tilkynnt í byrjun skólaársins 2018-2019

ÓPUS 1

Nemendur hefja nám í tónfræði þegar þeir eru í 4. bekk grunnskólans. Farið er í gegnum námsefnið Opus 1 ásamt tónheyrnaræfingum. Eldri byrjendur sem hafa ekki lokið undirbúningsnámi í tónfræði fá leiðsögn hjá viðkomandi hljóðfæra- eða söngkennara.

Að loknu undirbúningsnámi (Opus 1) hefst nám í Hlustun og greiningu

GRUNNNÁM

Grunnnám skiptist í tónfræði, tónheyrn og hlustun og greiningu.
Einnig vinna nemendur sérstakt valverkefni sem hluta af lokaprófi.
Hóptímar – 60 mínútur á viku. 2-3 ár

MIÐNÁM

Miðnám skiptist í tónfræði, tónheyrn og hlustun og greiningu.
Einnig vinna nemendur sérstakt valverkefni sem hluta af lokaprófi.
Hóptímar – 90 mínútur á viku – 3-4 ár
Árleg vorpróf í tónheyrn, hlustun og greiningu. Að þeim loknum taka nemendur samræmt miðpróf úr öllu efninu á vegum Prófanefndar
Sjá nánar bls. 40 í tónfræðinámsskrá.

FRAMHALDSNÁM

Framhaldsnám skiptist í hljómfræði, tónheyrn og tónlistarsögu auk þess sem nemendur velja sér eina valgrein.
Sjá nánar bls. 42-50 í tónfræðinámsskrá – Hóptímar – fer eftir fjölda nemenda.