Skólareglugerð

Reglugerð fyrir Tónlistarskóla Ísafjarðar

1. Grein
Skólinn heitir Tónlistarskóli Ísafjarðar. Skólinn er í eigu Tónlistarfélags Ísafjarðar og annast það rekstur hans í samræmi við ákvæði gildandi laga og reglugerða.

2. grein
Markmið skólans er að veita almenna tónlistarfræðslu og vinna að eflingu tónlistarlífs á Ísafirði. Þessum markmiðum hyggst skólinn á meðal annars með því að:

  • Kenna sem flestar greinar tónlistar, þar sem börnum jafnt sem fullorðnum gefst kostur á að stunda tónlistarnám eftir því sem aðstæður leyfa.
  • Efla sköpunargleði og hugmyndaflug nemenda.
  • Veita innsýn í sögulegt og menningarlegt gildi tónlistar.
  • Leggja áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þátttöku nemenda í samleik, kór- og hljómsveitarstarfi.
  • Eiga hljóðfæri fyrir nemendur til útleigu fyrstu námsárin.
  • Búa nemendur undir áframhaldandi nám í tónlist.

3. grein
Skólanefnd er skipuð þremur mönnum og þremur varamönnum. Tónlistarfélag Ísafjarðar velur tvo menn og tvo til vara og bæjarstjórn Ísafjarðar velur einn mann og einn til vara. Skólanefnd kýs formann úr hópi nefndarmanna. Formaður boðar til fundar svo oft sem þurfa þykir og skylt er að boða til fundar ef nefndarmaður, skólastjóri eða starfsfólk skólans óskar þess. Skólastjóri situr fundi skólanefndar. Starfsfólki skólans er heimilt að velja einn fulltrúa úr hópi fastra kennara til að sitja fundi skólanefndar. Skólastjóri og fulltrúi kennara hafa málfrelsi og tillögurétt og skulu þeir gæta sömu trúnaðarskyldu og nefndarmenn.

4. grein
Skólanefnd fer með yfirstjórn skólans í umboði Tónlistarfélags Ísafjarðar. Stjórn Tónlistarfélags Ísafjarðar ræður skólastjóra en skólastjóri ræður aðra starfsmenn skólans með samþykki skólanefndar, og í samræmi við fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar.

5. grein
Skólastjóri fer með daglega stjórnun í samráði við skólanefnd og kennara skólans. Hann ber ábyrgð á því að skólastarfið sé í samræmi við reglugerð þessa. Hann skal framfylgja samþykktum skólanefndar. Skólastjóri ráðstafar húsnæði og hefur yfirumsjón með eigum skólans. Skólastjóri kemur fram fyrir hönd skólans gagnvart starfsmönnum, nemendum og foreldrum þeirra svo og aðilnum utan skólans. Skólastjóri skal skila vinnuskýrslum starfsmanna til launadeildar Ísafjarðarbæjar og sjá um fjárreiður skólans að öðru leyti þar með talið greiðslu rekstrarreikninga og innheimtu skólagjalda.

6. grein
Heimilt er að ráða aðstoðarskólastjóra fari fjöldi kennslustunda yfir 200 á viku. Aðstoðarskólastjóri er skólastjóra til aðtoðar um innra starf skólans. Hann skal vera staðgengill skólastjóra.

7. grein
Kennarafundur er skólastjóra til ráðuneytis um starf skólans. Skólastjóri boðar til kennarafunda með dagskrá og stjórnar þeim. Haldin skal gjörðabók kennarafunda. Skylt er öllum föstum kennurum að sækja kennarafundi þá mánuði sem skólinn starfar.
Skylt er stundakennurum að sækja kennarafund ef skólastjóri æskir þess, enda sé boðað til fundarins með a.m.k þriggja daga fyrirvara.
Skylt er að halda kennarafund ef minnst ¼ hluti fastra kennara æskir þess.
Kennarafund skal halda í upphafi skólaárs þar sem drög að starfsáætlun eru kynnt.
Heimilt er að kjósa á kennarafundi þriggja manna kennararáð úr hópi fastra kennara er fari með umboð kennarafundar.

8. grein
Laun skólastjóra og kennara eru greidd af Ísafjarðarbæ. Annan rekstur skólans skal greiða með tekjum af skólagjöldum, hljóðfæraleigu og öðrum tekjum sem skólanum kunna að áskotnast.

9. grein
Skólagjöldin eru ákveðin af skólanefnd af fengnum tillögum skólastjóra. Skólastjóri gerir fjárhagsáætlun fyrir upphaf hvers skólaárs og kennsluáætlun vegna fjárhagsáætlunar bæjarsjóðs og leggur þær fyrir skólanefnd. Áætlarnirnar skal síðan senda til Tónlistarfélags Ísafjarðar og Ísafjarðarbæjar.

10. grein
Skólastjóri lætur löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga skólans. Endurskoðir reikningar skulu lagðir fyrir skólanefnd og síðan sendir Tónlistarfélagi Ísafjarðar og Ísafjarðarbæ.

11. grein
Rétt til skólavistar hefur hver sá er áhuga hefur á tónlistarnámi því sem skólinn býður uppá. Áætlun um kennsluskipan og námsframboð skal liggja fyrir í upphafi skólaárs og skal auglýsa það við innritun. Þurfi að takmarka fjölda nemanda í einstökum greinum er skólanum heimilt að beita hæfnisprófum og breyta auglýstu fyrirkomulagi. Heimilt er skólastjóra að vísa nemanda frá námi ef hann sinnir því ekki eða gerist brotlegur við reglur skólans og lætur ekki segjast við áminningu. Rísi ágreiningur um skólavist nemanda skal skólanefnd úrskurða í málinu.

12. grein
Starfstími skólans er 9 mánuðir árlega og skulu leyfisdagar fara eftir skóladagatali grunnskóla. Viðverutími og vinnuskylda kennara fer eftir gildandi kjarasamningi, en skólastjóra er heimilt að skipuleggja vinnu kennara utan starfstíma skólans að fengnu samþykki þeirra.