Húsmæðraskólinn Ósk

Prúðbúnar stúlkur við veisluborð í húsmæðraskólanum

Saga Húsmæðraskóla Ísafjarðar

Húsmæðraskólinn var stofnaður árið 1912 og var fyrst til húsa í Pólgötu 8. Teknar voru tvær stofur á leigu, ásamt eldhúsi og herbergi fyrir forstöðukonuna.
Aðdragandi að stofnun skólans var sá að á fundi Kvenfélagsins Ósk árið 1911 var rætt um stofnun húsmæðraskóla á Ísafirði og barst Alþingi áskorun:
„Fundurinn óskar, að húsmæðraskóli verði settur á stofn á Ísafirði og skorar á Alþingi að taka þetta mál að sér, og veita fé svo ríflega, að hægt verði að koma skólanum á fót, sem allra fyrst.”
Frumkvöðull skólans var frú Camilla Torfason sem var fædd á Ísafirði árið 1864. Camilla var fyrsti formaður Kvenfélagsins Óskar. Hún hafði lokið stúdentsprófi frá Kaupmannahöfn á þeim árum sem íslenskar konur höfðu ekki öðlast rétt til stúdentsprófs og var þar með fyrsta íslenska konan sem lauk stúdentsprófi. Hún stundaði síðar nám við Kaupmannarhafnarháskóla ásamt því að sinna kennslustörfum í Danmörku. Hefur reynsla hennar af slíkum störfum vakið áhuga hennar á menntamálum kvenna og var markmið hennar og félagsins að efla samúð og samvinnu, glæða félagslíf bæjarbúa og hafa hvetjandi og menntandi áhrif á æskulýðinn, einkum stúlkurnar.

ELDHÚSÁHÖLD HÚSMÆÐRASKÓLANS

SKÓLAREGLUR HÚSMÆÐRASKÓLANSVANTAR NOKKUR SKÓLASPÖLD Í SAFNIÐFJÓLA STEFÁNS

🇮🇸

Handavinnustund

🇮🇸

Í eldhúsinu

Fyrsta starfsárið voru 12 námsmeyjar við skólann og forstöðukonan Fjóla Stefáns. Námsgreinar skyldu vera matreiðsla, ræsting herbergja, þvottur og saumar, en bóklegar námsgreinar næringarefnafræði, hjúkrunarfræði og heimilis- og húsreikningar.
Frá Pólgötu 8 (með stuttri viðkomu í bæði Hrannargötu 2 og 9), fluttist skólinn að Fjarðarstræti 24 (Salem) og var starfræktur þar um skeið. Á þessum tíma var hann undir stjórn Gyðu Maríasdóttur sem veitti skólanum forstöðu í 12 ár af myndarbrag. Kvenfélagið Ósk rak skólann sem sjálfstæða stofnun allt til ársins 1941. Það sama ár samþykkti Alþingi lög um húsmæðraskóla í kaupstöðum landsins þar sem kveðið var á um að bæjarstjórnir skyldu taka að sér rekstur húsmæðraskóla og tilnefna fulltrúa í skólanefndir. Í framhaldi var Húsmæðraskólinn Ósk orðin opinber stofnun. Ljóst var að Húsmæðraskólinn hafði þörf fyrir nýtt húsnæði og árið 1944 var skólanum úthlutuð lóð undir nýtt skólahús við Austurveg og hafist handa við byggingu þess árið eftir. Húsameistarinn var Guðjón Samúelsson og byggingameistari Jón H. Sigmundsson. Þáverandi forseti bæjarstjórnar Sigurður Bjarnason var bjartsýnn við vígsluhátíð skólans, 5. okt 1948:
„Ég hygg að það sé ekki ofmælt, að þetta hús muni vera eitt hið vandaðasta skólahús, sem byggt hefir verið í þessu landi og þótt víðar væri leitað. Frágangur þess er frábær og lofar þar verkið meistarann, hinn vandvirka yfirsmið. Kostnaðurinn við þessa byggingu er í dag 2 milljónir 20 þúsund og 382 krónur.“

Húsmæðraskólinn Ósk

Byggingin var hin glæsilegasta. Handbragð ísfirskra iðnaðarmanna var lofað, en um húsgagnasmíði sáu Jónas Guðjónsson trésmíðameistari um ásamt Jóni H. Sigmundssyni. Á Austurvegi hófst farsæll tími húsmæðraskólans undir stjórn Þorbjargar Bjarnadóttur sem veitti skólanum forstöðu á árunum 1948 til 1986 eða í 38 ár. Þorbjörg var frá Vigur Í Ísafjarðardjúpi og hafði lokið námi í Húsmæðrakennaraskólanum árið 1946. Kennarar sem áttu langan ferill við kennslu í skólanum voru Guðrún J. Vigfúsdóttir og Jakobína Pálmadóttir.

Námsmeyjar á tröppum húsmæðraskólans

Skólinn var sóttur af námsmeyjum víða að af landinu og var sá eini í kaupstað, fyrir utan Húsmæðraskólann í Reykjavík, sem bauð upp á slíka kennslu. Konur komu frá Siglufirði, Reykjavík, Hafnarfirði og jafnvel austan af fjörðum. Sumar þeirra ílengdust, settust hér að og mynduðu fjölskyldur. Á meðan dvölinni stóð mynduðust tengsl og vináttubönd sem stóðu ævilangt.

Minningar um kvöldvökur og kvæðalestur, vefnaðartíma, árekstra og misheppnaðar tilfærslur í eldhúsbraski vöktu kátínu og hlátur. Árshátíðarveislan var þannig til komin að námsmeyjar greiddu í sameiginlegan sjóð fyrir hvern matarblett sem þær settu í borðdúka, mismunandi mikið eftir stærð blettsins. Úr þessum sjóði varð “Grísagillið”, veisla og skemmtisamkoma.

Fyrstu matreiðslubækur heimilisins urðu til við dvölina, handskrifaðar af nemendum, uppfullar af dýrmætum fróðleik og sannkallað gullkver heimilishaldsins, enda eins og einhver fróður sagði að „leiðin að hjarta mannsins er í gegnum magann“.

Straujað

Vefnaður var áberandi í skólastarfinu, enda var Guðrún J. Vigfúsdóttir kennari fremst á sínu sviði og mikil listakona við vefnað. Áklæði á húsgögn og gardínur sem prýddu nýju skólabygginguna var handverk hennar og Jakobínu Pálmadóttur. Guðrún starfaði við skólann í 43 ár og var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu íslensks ullariðnaðar. Nemendur í skólanum fengu góða kennslu á sviðum hannyrða og hefur margt verið framleitt innan skólans sem síðar prýddi veggi heimilisins eða klæddi heimilismeðlimi.

Líf og fjör í eldhúsinu

Skólatíminn á upphafsárum skólans við Austurveg var 8-9 mánuðir. Nemendum var skipt upp í hópa sem skiptu viku- eða hálfsmánaðarlega um störf. Aðalkennslugreinarnar voru matreiðsla, hússtjórn og hannyrðir þar sem vefnaður var síðar kenndur samhliða hannyrðagreinum. Miklar breytingar voru á handavinnukennslu á starfsárum skólans. Fyrst var aðaláherslan á margskonar útsaum, en fatasaumur, að sníða og sauma algengan barna- og kvenfatnað varð áberandi á seinni árum. Almenn kvennafræðsla, bóknámsgreinar, reikningshald og slíkt varð síðar viðbót við almenna fræðslu. Tækniframfarir á búnaði til húshalds og heimilisstarfa höfðu áhrif á kennsluhætti og hélst kennslufyrirkomulag í takt við tíðarandann hverju sinni.

Námsmeyjar 1951-52 reyta fugla. Sveinbjörg Elísabet Helgadóttir er lengst til vinstri

Námsleiðum ungs fólk tók að fjölga eftir 1960. Nú þótti sjálfsagt að stúlkur stunduðu sama nám og piltar, héldu í langskólanám og út á vinnumarkaðinn. Þetta hafði þau áhrif á að aðsókn í hússtjórnarskóla minnkaði töluvert. Húsmæðraskólinn sameinaðist Menntaskólanum ásamt Iðnskóla Ísafjarðar árið 1990. Varð þá til skóli á Vestfjörðum sem tók upp kennslu í ýmsum verknámsgreinum auk bóknáms til stúdentsprófs. Fjölmargar konur hafa fetað sín fyrstu spor fjarri heimkynnum hér á Austurveginum, öðlast færni og visku og verið sannkallaðar Óskardætur, glætt samfélagið lífi og rutt brautina til bjartsýni í menntamálum kvenna.

Myndir sem Árilía Jóhannesdóttir tók árið 1944-45.

 

Unnið í matjurtagarðinum

Veturinn 1963-64. Myndir: Signý Rósantsdóttir

 

Veturinn 1963-64. Myndir: Signý Rósantsdóttir

 

Námsmeyjar 1951-52 við vorhreingerningu. Sveinbjörg Elísabet Helgadóttir er lengst til vinstri

Á svölum húsmæðraskólans

 

Útskriftarárgangur 1976. Aftari röð: Þorbjörg, Jana, Jónína, Rannveig, Hjördís, Guðrún. Fremri röð. Guðrún, Guðrún, Sigurlaug, Fjóla, Lára, Elísabet. Fremstar: Hrafnhildur og Guðlaug.

 

Útskriftarárgangur 1983, neðri röð f.v.: Guðrún Eyþórsdóttir kennari, Guðrún Vigfúsdóttir kennari, Þorbjörg Bjarnadóttir skólastýra, Sigrún Vernharðsdóttir kennari og Dórathea Jónsdóttir kennari. Efri röð f.v.: Ragnheiður Ása Ingiþórsdóttir Keflavík, Þorbjörg Magnúsdóttir Bolungarvík, Brynja Valtýsdóttir Reyðarfirði, Steinunn Oddný Garðarsdóttir Árskógsströnd) Fjóla Magnúsdóttir Dalvík, Bergljót Snorradóttir Dalvík, Ósk Sigríður Jónsdóttir Dalvík, Ingibjörg Júlía Þorbergsdóttir Gerði í Suðursveit, Edda Gunnarsdóttir Dalvík, Sigríður Inga Ingimarsdóttir Dalvík, Hanna Andrea Guðmundsdóttir Hafnarfjörður og Rannveig Haraldsdóttir Patreksfjörður. Tvær stúlkur til viðbótar, Sigrún Björg Ásgeirsdóttir Keflavík og Arna …. , voru hálfan veturinn og eru ekki á myndinni.

 

ATH! Ef þið vitið nöfnin á stúlkunum á myndunum endilega sendið okkur þau á tonis@tonis.is

Árgangur 1961-1962

 

1949-1950

1948-1949

1947

 

1946-1947

 

1946

1945-1946

1944-1945

1943-1944

1940

1939-1940

1939

1938-1939

1938

1937-1938

1938

           

1924-1925. Gróa Salómonsdóttir, Ísafirði. Guðbjörg Halldórsdóttir, N.-Ísafjarðarsýslu. Guðbjörg Ólafsdóttir, Ísafirði. Guðlaug Ísaksdóttir, Rauðamýri. Guðrún Sveinsdóttir, Súðavík. Ína Pétursdóttir, Arnardal. Lilja Sigurðardóttir, Ísafirdi. Magnea Daníelsdóttir, Akureyri. Ólína Bergsveinsdóttir, Ísafirdi. Rannveig Sigurðardóttir, Ísafirði. Sara S. Guðmundsdóttir, Hrafnabjörgum. Sigríður Guðmundsdóttir, Bolungavík og Sigríður Tryggvadóttir, Kirkjubóli.

Texti: Finney Rakel Árnadóttir
Myndir: Ljósmyndasafn Ísafjarðar og úr einkaeign.

🇮🇸

ELDHÚSÁHÖLD HÚSMÆÐRASKÓLANS

SKÓLAREGLUR HÚSMÆÐRASKÓLANSVANTAR NOKKUR SKÓLASPÖLD Í SAFNIÐFJÓLA STEFÁNS

SÖGUR AF LANDI, HÚSMÆÐRASKÓLINN ÓSK

🇮🇸

Hluti af sögusýningu um starfsemi húsmæðraskólans er í Tónlistarskóla Ísfirðinga, húsinu sem áður hýsti húsmæðraskólann. Tekið er á móti afmælisútskriftaárgöngum og öðrum sem vilja skoða sýninguna og fræðast um Húsmæðraskólann Ósk á opnunartíma tónlistarskólans.

🇮🇸