Kæri tónlistarunnandi,

Tónlistarfélag Ísafjarðar fær að þessu sinni til sín einn fremsta djassgítarleikara landsins en það er Andrés Þór sem mætir til okkar fimmtudaginn 14. nóvember kl. 20:00 ásamt kvartettnum sínum Paradox.

Kvartett mun leika lög af glænýjum diski hans, Paradox, sem var hljóðritaður á síðasta ári í Brooklyn í New York. Á disknum, sem er sá sjötti í röðinni er að finna níu frumsamda jazzópusa sem sækja áhrif sín úr ýmsum áttum, allt frá þjóðlagatónlist til skammtafræði. Ásamt Andrési skipa kvartettinn píanóleikarinn Agnar Már Magnússon, kontrabassaleikarinn Þorgrímur Jónsson og trommuleikarinn Scott McLemore. Þeir félagar hafa starfað lengi saman við ýmis ólík verkefni en þessi tiltekni kvartett kom fyrst fram undir nafni hljómsveitarstjórans árið 2011 og í kjölfarið hljóðrituðu þeir hljómdiskinn Mónókróm sem hlaut afar góðar viðtökur.

Nánari upplýsingar um listamennina má sjá á facebook síðu félagsins.

Aðgangur ókeypis, frjáls framlög!

 

fyrir hönd Tónlistarfélags Ísafjarðar

Sigrún Pálmadóttir

https://youtu.be/qwSBgPtGTpI