Tónlistarskólinn settur

29. ágúst 2022 | Fréttir, Hamrar

„Það var svo heitt úti og svo var troðfullt út úr dyrum, þannig að þetta var eiginlega eins og skólaslit,“ sagði Janusz eftir skólasetninguna. Tónlistarskólinn var settur í 74. sinn í dag. Bergþór Pálsson skólastjóri sagði frá starfinu framundan og kynnti tvo nýja kennara, þau Judy Tobin og Oliver Rähni.

Í ræðu sinni kom Bergþór víða við, en talaði um hve mikilvægu hlutverki tónlistarskólar gegna við að glæða áhuga og frumkvæði. Að lokum sagði hann: „Jón Leifs sagði eitt sinn að án ástar og tónlistar væri lífið ekki þess virði að lifa því. Mikið er ég sammála honum. Tónlistarmenntun er mikilvæg fyrir framtíðarheill og giftu ísfirskra ungmenna og henni megum við aldrei glutra niður með andvaraleysi og sofandahætti.

Tónlist veitir bæði iðkendum og njótendum lífsfyllingu, vegna þess að í henni felst svo margt sem við höfum þörf fyrir að tjá, en getum ekki komið í orð. Þau sem átta sig á töframætti tónlistarinnar og gefa sig á vald honum, skilja að tilfinningin sem verður til í brjóstinu er frumþörf, sem þarf að næra reglulega, rétt eins og fæða og súrefni. Við megum ekki fara á mis við þessi lífsgæði, því að þau eru ekki tómstundagaman eða dúllerí, heldur frumþörf. Þess vegna er starf Tónlistarskólans algjör lykilstarfsemi í litla samfélaginu okkar. Ég hlakka til starfsins í vetur og treysti því að við öll kyndum undir eldmóði okkar fyrir verkefnunum, nemendur sem kennarar.“

Bergþór stjórnaði svo fjöldasöng frá flyglinum, en nýju kennararnir, Judy og Oliver, slógu í gegn þegar þau spiluðu fjórhent Spænskan dans eftir Moszkowski.

Í lokin var gestum boðið upp á rabarbarapæ

Bergþór setur skólann

Gestir tóku hraustlega undir í Einu sinni á ágústkvöldi undir stjórn Bergþórs.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is