Judy Tobin

29. ágúst 2022 | Fréttir

Judy Tobin

Judy Tobin

Judy Tobin

Judy Tobin er búin að færa lögheimiliið sitt frá Mexíkó á Ísafjörð, þar sem lognið á líka lögheimili. Henni Judy fylgir samt ekki bara logn, heldur fjör og hlýr andblær. Áður en hún fór til Mexíkó kenndi hún í 27 ár við Tónskóla Sigursveins.

Judy er ein af þessum sem getur eignast vini hvar sem er og við efumst ekki um að hún mun eiga auðvelt með að aðlagast bæjarlífinu. Við báðum börnin hennar að rifja upp minningu úr bernsku. Það fyrsta sem þeim datt í hug var að það gekk mjög hægt að vera samferða mömmu sinni, því að hún þekkti fólk alls staðar og þurfti alls staðar að stoppa til að rabba við mann og annan. Svo sem ekkert skrýtið þótt fólk laðist að henni, því að af henni skín vinátta og glampi í augunum og henni finnst bara svo skemmtilegt að tala við hvern sem er, hvort um er að ræða 80 ára gamlan mann eða lítinn mexíkóskan hund.

Judy er nýr píanókennari í Tónlistarskólanum í forföllum Beu Joó. Hún hefur alltaf elskað tónlist, en þegar hún var lítil spilaði hún oft fjórhent með pabba sínum. Pabbi hennar var tannlæknir, og kunni að dáleiða fólk sem var hrætt við tannlækna, en honum tókst aldrei að dáleiða hana Judy! Hún var oft stríðin við litla bróður sinn og bjó til leiki með reglum þar sem var ómögulegt fyrir hann að vinna, en í dag er hún ekki eins stríðin og myndi jafnvel leyfa öðrum að vinna í spilum, því henni finnst svo ósköp leiðinlegt að sjá annað fólk leitt.

Ef þið skiljið allt í einu ekki hvað Judy er að segja, hefur hún kannski óvart skipt um tungumál, því Judy talar reiprennandi íslensku, ensku og spænsku, enda er hún eldfljót að læra. Þegar hún er ekki að leita ævintýrin uppi ,spilar hún ekki bara á píanó, heldur líka á orgel, stjórnar kórum, málar, les, og allt mögulegt. Judy bjó í sjö ár í Mexíkó, og hún kenndi mexíkóskum kór að syngja á íslensku, hér má hlusta á þau syngja Heyr himna smiður

Þegar Judy var lítil, tók fjölskylda hennar oft flóttamenn frá Chile inn á heimilið. Fátt fannst henni skemmtilegra en að sitja og hlusta á þetta fólk spila lög frá heimahögunum. Kannski var það ástæðan fyrir því að hún tók upp á því seinna að flytja til Mexíkó til að njóta tónlistarlífsins þar.

Judy ákvað að flytja frá Mexíkóborg, þar sem búa 23 milljónir manns, til Ísafjarðar til að kenna í TÍ, og hún er virkilega spennt að búa í þessum fallega bæ. Þegar hún flutti til Ísafjarðar vantaði hana öll húsgögn og setti inn á Ísafjarðarmarkaðinn spurningu um hvort fólk ætti húsgögn aflögu. Strax á fyrsta degi var hún komin með allt sem hana vantaði frá gjafmildum Ísfirðingum. Hún er ákaflega þakklát og djúpt snortin að hafa fengið svo hlýjar móttökur og hlakkar til að taka þátt í litlu samfélagi þar sem nágrannarnir hjálpa hverjir öðrum.

Við erum svo ótrúlega heppin alltaf í Tónlistarskólanum!

Hér er sýnishorn af eldamennsku Judyar

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is