Húsfyllir hjá ísfirsku Frach bræðrunum

2. nóvember 2022 | Fréttir, Hamrar

Húsfyllir hjá ísfirsku Frach bræðrunum

Ísfirsku Frach bræðurnir, Maksymilian, víóluleikari, Mikolaj píanóleikari og Nikodem fiðluleikari komu færandi hendi á heimaslóðirnar í annað skipti á þessu ári ásamt móður sinni, Iwonu Frach og píanókennara Mikolajs, prófessor Mariola Cieniawa.

Margir gestir í salnum hafa fylgst með þessum dáindisdrengjum síðan þeir voru smábörn að stíga sín fyrstu skref á tónleikapalli og hlýnar um hjartarætur þegar þeir koma heim og leyfa okkur að fylgjast með hverju fram vindur í framhaldsnáminu í Kraká.

Það er skemmst frá að segja að hjartað stækkaði um heilt númer þetta kvöld. Ekki aðeins er músíkalitet þeirra og gríðarleg leikni heillandi, en ekki síður bera þeir með sér einstaka hlýju, vinsemd og ekki síst hógværð. Það er því engin furða þótt sumir áhorfendur hafi komist við þegar þeir sýndu listir sínar.

Maksymilian hóf leikinn á víóluna í 1. þætti af arpeggione sónötunni eftir Schubert ásamt móður sinni, Iwonu. Fögur hendingamótun og mýkt umvafði áheyrendur, eins og Schubert hæfir í frábærri inntónun og innsæi og þau mæðgin voru samstillt sem einn maður. Nikodem lagði sér svo fiðluna undir vanga og tókst á við einn erfiðasta fiðlukonsertinn, 1. þáttinn í D dúr konsert Tsjækovskís, sem hann skrifaði 1878 í Sviss fyrir nemanda sinn Iosif Kotek. Próf. Mariola studdi hann eins og heil hljómsveit. Það þarf hugrekki til að takast á við þennan konsert, endalausar runur og snúin tvígrip, sem Nikodem skilaði af glæsibrag.

Eftir hlé spilaði Mariola svo þrjú af þekktustu verkum Chopins, Lento con gran espressione, cís moll valsinn op. 64 og As dúr valsinn op. 53. Mariola Cieniawa er SKÁLDJÖFUR við hljóðfærið. Vissulega eru þessi verk henni í blóð borin, jafn sjálfsögð í uppeldinu og heilnæm fæða, en þau voru ekki bara tæknilega fullkomlega örugg, heldur var krafturinn, unaðsleg mýkt og allt þar á milli af þeirri gerð, að fólk varð agndofa.

Mikolaj kom sá og sigraði í „Klassíkin okkar“ með Sinfóníuhljómsveit Íslands í haust með 3. kafla 1. píanókonserts Chopin. Hér tók hann Chopin einnig fyrir, tvo mazúrka úr op. 30 og pólónesuna í As dúr op. 53. Mikolaj vex með vegsemd hverri, eins og bræður hans, hann var fagmannlegur, stilltur, en undir niðri ólgaði hitinn sem bullaði stundum upp á yfirborðið. Listamaður.

Ísfirðingum þykir óumræðilega vænt um þessa bræður og vonandi fáum við að sjá þá og heyra sem fyrst aftur. Heimsóknir þeirra eru auðgandi fyrir samfélagið. Allt það glaða fólk sem fór út í svalt og töfrandi lognið færir heim sanninn um það og Geigei hafði á orði að þetta hefði verið mögnuð veisla, en strákarnir muna ekki eftir tónleikum sem þeir hafa spilað á, án þess að Geigei hafi verið mætt.

Bravó, kæru vinir, og ekki síst Iwona og Janusz. Mikið megið þið vera stolt. Tónlistarskólinn þakkar fyrir sig. Við hlökkum til næst!

Geigei hafði á orði að þetta hefði verið mögnuð veisla, en strákarnir muna ekki eftir tónleikum sem þeir hafa spilað á, án þess að Geigei hafi verið mætt.

F.v. Nikodem fiðluleikari, Mikolaj píanóleikari, móðir þeirra Iwona Frach píanóleikari, prófessor Mariola Cieniawa-Puchalam kennari Mikolajs, Maksymilian, víóluleikari.

Mikolaj, Nikodem og Maksymilian spila aukalagið, tangóinn El Choclo, sem þeir spiluðu stundum á tónleikum í TÍ í „gamla daga“.

 

Eftir tónleikana var boðið upp á léttar veitingar, m.a. Piernik, pólskar engifersmákökur og Prins Póló

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is