VORÞYTUR lúðrasveitanna í Ísafjarðarkirkju

7. maí 2013 | Fréttir

Vorið er uppskeruhátíð tónlistarnema og að venju stendur Tónlistarskóli Ísafjarðar fyrir mörgum nemendatónleikum í maí.
Tónleikaröð skólans hefst á miðvikudagskvöld 8.maí með hinum árlegu tónleikum lúðrasveita skólans í Ísafjarðarkirkju. Tónleikarnir eru haldnir undir yfirskriftinni VORÞYTUR enda má segja að með þeim séu sveitirnar að blása vorið í bæinn. Á tónleikunum koma fram þrjár lúðrasveitir: Skólalúðrasveit T.Í. sem skipuð er nemendum á grunnskólaaldri sem stunda nám við skólann, Miðsveitin sem er skipuð  lengra komnum nemendum og Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar sem er skipuð blásurum á ýmsum aldri sem margir hafa mikla reynslu í farteskinu. Á tónleikunum kemur einnig fram hópur nemenda í 5.bekk Grunnskólans á Ísafirði, sem hafa tekið þátt í sérstöku samvinnuverkefni skólanna síðustu mánuði, þar sem allir 5.bekkingar fengu kennslu á  blásturshljóðfæri í hópkennslu. Verkefnið var styrkt af orkubúi Vestfjarða.
Dagskráin á tónleikunum er í léttari kantinum, þekkt erlend dægurlög eftir Cobain, Coldplay, Adele o.fl. en einnig íslensk lög eftir Gunnar Þórðarson og Sigfús Halldórsson.
Það er hinn kraftmikli Eistlendingur Madis Mäekalle sem hefur undirbúið þessa tónleika og stjórnar öllum sveitunum og hefur einnig útsett og aðlagað flest lögin.
Aðgangseyrir að tónleikunum er kr. 1.000 en kr.500 fyrir börn 12 ára og yngri og rennur hann í sjóð lúðrasveitanna.