VORSÖNGVAR kóranna á uppstigningardag

7. maí 2013 | Fréttir

Í Tónlistarskóla Ísafjarðar starfa reglulega 2 kórar, Barnakór nemenda úr 2.-6.bekk og Skólakór eldri nemenda. Nk.fimmtudag 9.maí (uppstigningardag) halda kórarnir árlega vortónleika sína í Hömrum undir yfirskriftinni VORSÖNGVAR. Dagskráin er sumarleg og skemmtileg og eitthvað við allra hæfi.

Barnakórinn syngur lög úr söngleikjum, íslensk þjóðlög, lög eftir íslensk tónskáld s.s. Atla Heimi Sveinsson og Hauk Tómasson, auk þess sem kórinn frumflytur lag eftir einn kórfélaga, Rebekku Ósk Skarphéðinsdóttur.

Skólakórinn syngur erlend lög, m.a. eftir Bítlana, og íslensk lög, bæði þjóðlög og lög eftir íslensk tónskáld s.s. Þorkel Sigurbjörnsson og Hreiðar Inga Þorsteinsson. Skólakórinn hlaut nýlega tónlistarverðlaunin NÓTUNA fyrir framúrskarandi tónlistarflutning á lokahátíð Nótunnar, uppskeruhátíðar íslenskra tónlistarskóla í Eldborg.

Það er hin öfluga kórstýra Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, sem stjórnar báðum kórunum og hefur veg og vanda af undirbúningi tónleikanna, en henni til aðstoðar á píanó er Hulda Bragadóttir.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is