UNIFEM kynning í Hömrum

20. apríl 2010 | Fréttir

Síðasta vetrardag, miðvikudagskvöldið 21.apríl kl. 20:00 verður fjölbreytt dagskrá í Hömrum til að kynna starf Kvennasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNIFEM).

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir framkvæmdastýra sjóðsins á Íslandi mun kynna starf UNIFEM í þágu kvenna á heimsvísu. Ágústa Gísladóttir, sérfræðingur hjá Þróunarsamvinnustofnun, hefur starfað til lengri eða skemmri tíma í nokkrum ríkjum Afríku en hún mun segja frá starfi sínu með konum á þessum slóðum. Kvennakór Ísafjarðar og Stúlknakór Tónlistarskóla Ísafjarðar taka nokkur lög undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur. Þá mun Ingunn Ósk Sturludóttir syngja og Guðrún Jónsdóttir lesa ljóð. Kynnir verður Ylfa Mist Helgadóttir.

„Lista“konurnar Albertína Elíasdóttir, Arna Lára Jónsdóttir og Guðfinna Hreiðarsdóttir sjá um kaffiveitingar í hléi. Systralagið er fjáröflunarverkefni UNIFEM á Íslandi. Með því að ganga í Systralagið ákveður þú að styðja starf UNIFEM á þágu kvenna heimsins. Þannig styður þú bæði systur þínar og fjölskyldur þeirra. Það er margoft sannað að það sem okkur þykir lítið fé hér á Íslandi hefur gríðarleg áhrif annars staðar í heiminum. UNIFEM á Íslandi hvetur landsmenn til að láta smávegis af hendi rakna, til dæmis 1000 krónur á mánuði, það eru bara 33 krónur á dag.

UNIFEM er Kvennasjóður Sameinuðu þjóðanna og var stofnaður árið 1976. Meðal verkefna UNIFEM á alþjóðavísu er að auka efnahagslegt öryggi og réttindi kvenna, auka hlut kvenna í lýðræðislegri uppbyggingu ríkja á friðar- og stríðstímum sem og að binda endi á ofbeldi gegn konum. UNIFEM á Íslandi er ein af 17 landsnefndum UNIFEM en þær eru frjáls félagasamtök sem styðja við starf sjóðsins.

UNIFEM á Íslandi beinir um þessar mundir sjónum sínum að vitundarvakningu meðal almennings á Íslandi um málefni kvenna í þróunarlöndum og á stríðshrjáðum svæðum. Nú er ferðinni heitið á Ísafjörð þar sem öflugir sjálfboðaliðar hafa tekið höndum saman og boðað til kynningar á málstað UNIFEM.
Markmið UNIFEM á Íslandi er að afla fjár til verkefna UNIFEM frá hinu opinbera, fyrirtækjum og einstaklingum, kynna og auka áhuga landsmanna á UNIFEM auk þess að vera málsvari kvenna í þróunarlöndum með það að leiðarljósi að störf þeirra séu órjúfanlegur hluti friðar og framfara.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is