Tónskáldamynd frá Gulla Jónasar

25. október 2022 | Fréttir

Gunnlaugur Jónasson hinn eini og sanni velgjörðamaður Tónlistarskólans og mannvinur, Gulli Jónasar bóksali, kom léttstígur færandi hendi og gaf skólanum fallega innrammaða mynd af þekktum tónskáldum.  Myndin var gjöf foreldra Láru Steindórs Gísladóttur, eiginkonu Gulla, þeirra Gísla Júlíussonar skipstjóra á Fagranesinu og Bergrínar Jónsdóttur frá Skeggjastöðum í Fellum á Héraði (afa og ömmu Holy B).

Léttstígur já. Gulli er í góðu formi, enda má segja að hann hafi stundað stanslausa hreyfingu í vinnunni, slík var þjónustulundin að hann skoppaði á ógnarhraða upp og niður stiga í Bókhlöðunni, ef eitthvað vantaði frammi í búðinni. Hann fer líka í göngutúra og gerir líkamsæfingar daglega. Aðspurður segist hann þó ekki fylgja morgunleikfimi útvarpsins, „hún er ekki á réttum tíma“ segir hann og kímir. Gulli er nefnilega dæmigerður B maður, les mikið á kvöldin og þá gjarnan frameftir nóttu.

Það er einstaklega gaman að heyra Gulla segja frá lífshlaupi sínu. Þegar hann var 23 ára sigldi hann t.d. til London til að læra ensku. Jónas gamli pabbi hans taldi að það væri nauðsynlegt að hafa enskumælandi mann innanbúðar til að panta bækur og tímarit, því að allt var pantað beinustu leið utan úr heimi. Í London keypti Gulli sér mótorhjól til að ferðast um. Hann skellti sér til Parísar á hjólinu og bauð vini sínum að sitja aftan á hnakknum. Ferðin gekk vel, en svo fór þó að hjólinu var stolið. Þá voru góð ráð dýr, þeir félagar strandaglópar í Parísarborg. Þeir hófu leit og þá kom í ljós að þjófurinn hafði ekki komið hjólinu í gang, svo að það fannst skammt frá. Þeir renndu sér svo vígreifir saman á hjólinu heim á leið til London.

Gunnlaugur er hafsjór af fróðleik um bæjarlífið og ekki síst menningarlífið á Ísafirði um áratuga skeið. Hann er framúrskarandi hógvær, en hefur alla tíð barist af einurð fyrir málum sem til framfara hafa þótt horfa, sat í stjórn Tónlistarfélagsins, var formaður nefndar um stofnun MÍ og í undirbúningsnefnd skíðalyftu og svo mætti lengi telja. Sannkallaður heiðursmaður!

 

Bergþór skólastjóri og Gulli Jónasar með myndina. Skápurinn á bak við þá var í eigu Jónasar Tómassonar, föður Gulla. Skápurinn er fullur af bókum, nótum, bæklingum og öðrum dýrgripum, sumum fágætum. Í annarri hillu eru karla- og kvennakórslög til hægri, í miðjunni kórnótur fyrir blandaðan kór og til vinstri kirkjukórsnóturnar.

Tónskáldamyndin á vegg í bókasafni tónlistarskólans

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is