Tónlistarmaðurinn 7oi kynnir tónlist sína

14. október 2011 | Fréttir

 Jóhann Friðgeir Jóhannsson tónskáld, sem gengur undir listamannsheitinu 7oi, kynnir tónlist sína og viðfangsefni í Hömrum, Ísafirði. sunnudaginn 23. október kl. 13.30. Jóhann Friðgeir ólst upp á Ísafirði og hefur verið viðriðinn tónlistarsköpun frá unglingsaldri. Hann lagði um tíma stund á píanó- og tónfræðinám í Tónlistarskóla Ísafjarðar en hóf nám í nýmiðlum við tónlistardeild í Listaháskóla Íslands haustið 2006 og útskrifaðist þaðan með B.A gráðu vorið 2009.   Sem raftónlistarmaðurinn 7oi hefur hann gefið út þó nokkrar hljómplötur, samið tónlist fyrir stuttmyndir, spilað á tónlistarhátíðum, samið tónlist fyrir leikrit, verið viðriðinn mörg dansverk og svo mætti áfram telja. Vorið 2010 var Jóhann Friðgeir ráðinn í starf verslunarstjóra Eymundsson á Ísafirði og er nú búsettur þar ásamt fjölskyldu sinni, en Jelena kona hans starfar við myndlist.

Forvitnilegt verður að kynnast tónsköpun Jóhanns þar sem hann hefur engan veginn farið troðnar slóðir í þeim efnum sjá heimasíðu hans http://www.sevenoi.com/