TÓNLISTARHÁTÍÐIN VIÐ DJÚPIÐ 19.-24.JÚNÍ – Dagskrá

18. júní 2012 | Fréttir

  Tónlistarhátíðin VIÐ DJÚPIÐ er nú haldin í 10.sinn og stendur yfir dagana 19.-24.júní.

Á hátíðinni verður sem fyrr skemmtileg blanda námskeiða og tónleika af fjölbreyttasta

tagi, fyrirlestur, hádegistónleikar, klassískir tónleikar og söngvaskáldatónleikar.

Hægt er að kaupa tónleikapassa á kr.6.000 sem gildir á alla 16 tónleika hátíðarinnar

en einnig er hægt að kaupa hátíðarpassa á kr. 8.000  sem gildir þá líka til að hlýða á námskeiðin.

 

 

Fyrirlestur í Saumastofunni á 2.hæð Tónlistarskólans – þriðjudaginn 19.júní kl.17:00.

Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur fjallar um kvæða- og tvísöngshandrit sem var að öllum líkindum skrifað í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp á 17.öld. Í handritinu eru nótur að tíu tvísöngslögum sem veita einstaka innsýn í tónlistarheim Íslendinga á 17. öld. Handritið komst síðar í eigu Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn og var meðal þeirra sem björguðust úr brunanum mikla árið 1728.

Ókeypis aðgangur.

 

Sex klassískir tónleikar í Hömrum:

Fyrstu tónleikarnir verða þriðjudagskvöldið 19.júní kl. 20:00, en þar kemur fram einn af þremur aðalkennurum hátíðarinnar, Jorja Fleezanis fiðluleikari ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara. Á efnisskránni eru fiðlusónötur eftir Debussy og Janacek, en líka verk fyrir fiðlu og tölvu eftir John Tavener.

Á miðvikudagskvöld kl. 20:00 leikur kammerhópurinn The Declassified frá New York, en hópinn skipa þau Sarah Beaty (klarinett), Anna Elashvili (fiðla), Owen Dalby (fiðla), Meena Bashin (víóla) og Sæunn Þorsteinsdóttir (selló), en þau þrjú síðastnefndu voru hér á hátíðinni í fyrra.

Á tónleikunum á fimmtudagskvöld kl.20:00 koma fram þrír af fremstu tónlistarmönnum okkar, þau Stefán Ragnar Höskuldsson  flautuleikari, Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari og Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari. Þau flytja verk eftir Bach, Prokofieff, Villa-Lobos og Saint-Säens.

Á föstudagskvöldinu leika þau Vovka Ashkenazy píanóleikari, Alice Pinto píanóleikari og Sif Tuliníus fiðluleikari verk eftir Debussy, Ravel, Schumann o.fl..

Á laugardagstónleikunum kl. 17:00 frumflytur kammerhópurinn The Declassified þrjú ný verk eftir tónskáldin Árna Frey Gunnarsson, Ellis Ludwig-Leone og Maté Szigeti, en verkin voru pöntuð sérstaklega fyrir hátíðina.

Á lokatónleikum hátíðarinnar í Hömrum, sunnudaginn 24.júní kl. 16:00 koma fram listamenn hátíðarinnar í blandaðri dagskrá.

Aðgangur að stökum tónleikum er kr.2.000 (1.500 fyrir lífeyrisþega og skólafólk), tónleikapassinn gildir á þá alla.

 

Þrennir fræðandi hádegistónleikar í anddyri Grunnskólans – hefjast kl.12:10.

Miðvikudaginn 20.júní mun Sarah Beaty kynna klarinettið og hljóðheim þess og möguleika.

Fimmtudaginn 21.júní munu fiðluleikararnir Ari Vilhjálmsson og Gunnhildur Daðadóttir leika verk fyrir eina fiðlu og jafnvel tvær eftir ýmis tónskáld, allt frá Bach til Bartók. Hlustendur fá að kynnast bakgrunni verkanna og því umhverfi sem þau eru sprottin úr.

Á föstudeginum mun sannkölluð Balkansveifla ráða ríkjum í hádeginu , en á tónleikunum mun hljómsveitin The Balkanics flytja Balkan- og klezmer tónlist. Hljómsveitina skipa þau Sian Phillips, harmonikka, Hugh Tuffen, selló, Jane Lawrence, fiðla og Paul Sherwood, hurdy gurdy. Hljómsveitin kynnir þessi ólíku hljóðfæri til leiks og svarar spurningum tónleikagesta.

Ókeypis aðgangur er að hádegistónleikunum sem eru í haldnir í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða.

 

Hádegistónleikar í Ísafjarðarkirkju – laugardaginn 23.júní kl.12:00 (ekki 12:10).

Á tónleikunum koma fram James McVinnie orgelleikari, Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari og Nadia Sirota víóluleikari. Á fjölbreyttri efnisskrá eru verk eftir Bach, Kurtág, Biber, Nico Muhly, Pál Ísólfsson, Atla H.Sveinsson og Unu Sveinbjarnardóttur.
Aðgangur að þessum tónleikum er kr.2.000 (1.500 fyrir lífeyrisþega og skólafólk), en tónleikapassinn gildir.

 

Fernir tónleikar með söngvaskáldum á veitingastaðnum Húsið við Hafnarstræti – kl.22.00.

Hér er um að ræða nýja tónleikaröð þar sem 4 söngvaskáld koma fram ásamt húsbandi hátíðarinnar.

Þriðjudagskvöld: Helgi Hrafn Jónsson

Miðvikudagskvöld: Jussanam Dejah

Fimmtudagskvöld: Skúli Mennski (sem hefur umsjón með þessari tónleikaröð)

Föstudagskvöld: KK

Húsbandið skipa þeir Halldór Smárason píanó, Valdimar Olgeirsson bassi og Kristinn Gauti Einarsson trommur.

Aðgangur að stökum tónleikum er kr.2.000 (1.500 fyrir lífeyrisþega og skólafólk), en tónleikapassinn gildir .

 

Tvennir nemendatónleikar með þátttakendum á námskeiðum (fiðla, píanó, flauta)

Laugardaginn 23.júní kl. 14:00 – í Hömrum

Sunnudaginn 24.júní kl.14:00 – í Hömrum

Ókeypis aðgangur