Þingeyrskir frumkvöðlar á svið!

11. mars 2010 | Fréttir

Nýtt leikrit verður frumflutt á Þingeyri föstudaginn 12. mars og er því mikið fjör og líf í leiklistarlífinu í Dýrafirði þessa dagana. Leikverkið tengist sögu Dýrafjarðar og má því segja að hér séu heimamenn að halda áfram að fjalla um eigin sögu en í fyrra settu þau á svið leikverkið Dragedúkken sem sló heldur betur í gegn. Leikurinn sá gerist í lok átjándu aldar og fjallar um kaupmanninn og tónskáldið Andreas Steenbach á Þingeyri. Nú er haldið enn lengra aftur í aldir því nýja leikverkið gerist í lok sextándu aldar og upphafi þeirra sautjándu. Leikurinn nefnist Eikin ættar minnar, af séra Ólafi á Söndum.

Klerkurinn Ólafur Jónsson var mjög merkur maður fæddur um 1560 á Tálknafirði en varð prestur á Söndum í Dýrafirði 1596 og til æviloka. Var hann síðan kenndur við þann stað. Ólafur þjónaði á Söndum samfellt í 31 ár og andaðist þar árið 1627. Ólafur er eitt af fyrstu tónskáldum Íslandssögunnar og var meðal vinsælustu og virtustu skálda þjóðarinnar á sínum tíma. Það er því við hæfi að gera þessu höfuðskáldi góð skil á heimaslóðum. Höfundur og leikstjóri verksins er Elfar Logi Hannesson og tónlistarstjóri er Krista Sildoja sem einnig sér um tónlistarflutning. Alls taka 20 leikarar þátt í sýningunni en í heildina koma um 50 manns að sýningunni.

Eikin ættar minnar verður frumsýnt föstudaginn 12. mars kl. 20 í Félagsheimilinu á Þingeyri. Miðasala hefst á allar sýningar á morgun í síma: 848 4055. Næstu sýningar á Eikin ættar minnar verða sem hér segir: 2. sýning sunnudaginn 14. mars kl. 20, 3. sýning þriðjudaginn 16. mars kl. 20 og 4. sýning laugardaginn 27. mars kl. 20. Einnig verða tvær sýningar um páskana. Fyrri sýningin verður á Skírdag 1. apríl kl. 17 og seinni sýningin daginn eftir á Föstudaginn langa kl. 17.