Svæðistónleikar Nótunnar

11. mars 2014 | Fréttir

Sannkölluð hátíðarstemning ríkti á svæðistónleikum Nótunnar sem haldin var í Borgarnesi laugardaginn 8. mars s.l. Þar komu fram í 25 atriðum nemendur frá 10 tónlistarskólum á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norð-Vesturlandi. Tónleikarnir voru afar fjölbreyttir og ánægjulegir og sýndu vel það góða starf sem fram fer í tónlistarskólum landsins. Þrír nemendur frá Tónlistarskóla Ísafjarðar komu fram fyrir hönd skólans, þeir Pétur Ernir Svavarsson sem lék eigið verk á píanó, Nikodem Júlíus Frach sem lék á fiðlu Country e. Dabski við undirleik bræðra sinna Maksymilians og Mikolajs og Þormóður Eiríksson sem flutti frumsamið verk á gítarinn sinn. Skemmst er frá því að segja að allir þrír fengu viðurkenningarskjal og verðlaunagrip Nótunnar fyrir framúrskarandi atriði, verður það að teljast mjög góður árangur. Rúsínan í pylsuendanum er svo sú að Nikodem var valinn til að koma fram á Lokahátíð Nótunnar sem fram fer í Hörpu sunnudaginn 23. mars n.k. Ekki er nokkur vafi á að hann á eftir að standa sig vel og fylgja honum góðar óskir.