Stórkostlegri tónlistarhátíð lokið!

2. júlí 2010 | Fréttir

Lokatónleikar tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið voru sl. sunnudag 27. júní, en þar lék blásarakvintettinn Nordic Chamber Soloists 3 splunkuný verk eftir ung íslensk tónskáld, þá Hallvarð Ásgeirsson, Petter Ekström og Finn Karlsson. Tónleikarnir voru teknir upp af Ríkisútvarpinu og verða fluttir á Rás 1 fljótlega.

Þar með lauk fjölbreyttri og veglegri tónaveislu sem staðið hafði í 6 daga með 15 tónleikum: Fiðlutónleikar, píanótónleikar, kórtónleikar, blásaratónleikar, söngtónleikar, hádegistónleikar, morguntónleikar, nemendatónleikar, frönsk tónlist, spænsk tónlist, vísnasöngur, rokk, klassík, svo mætti áfram telja.

Fjöldi nemenda sótti námskeið í píanóleik, píanókennslu, söng og fiðluleik og mörgum þeirra fylgdu foreldrar eða makar. Tónleikar voru allir mjög vel sóttir, bæði af gestum og heimafólki.

Blaðakonan Hannah Beynon frá breska tónlistartímaritinu Classical Music sótti hátíðina og var yfir sig hrifin af viðburðunum, umhverfinu og andrúmsloftinu. Búast má við að stór grein birtist um hátíðina og Ísafjörð í tímaritinu.

Það voru þau Dagný Arnalds og Greipur Gíslason sem höfðu undirbúið og  skipulagt hátíðina af einstakri vandvirkni, útsjónarsemi og metnaði og munu þau einnig halda utan um stjórnartaumana á næstu hátíð.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is