Starfsár Tónlistarfélags Ísafjarðar hefst í næstu viku

29. september 2010 | Fréttir

Í næstu viku hefst nýtt starfsár Tónlistarfélags Ísafjarðar með hinum árlegu minningartónleikum um hjónin Sigríði Jónsdóttur og Ragnar H.Ragnar.

Á tónleikunum sem verða í Hömrum fimmtudagskvöldið 7.október kl. 20 leikur píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson Partítu nr. 2 eftir Bach, allar prelúdíur Chopins og eigin umritanir á íslenskum sönglögum, m.a. Ave Maríu eftir Sigvalda Kaldalóns.
Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari er án efa ein skærasta stjarnan á íslenska tónlistarhimninum í dag. Hann hefur haldið fjölda einleiks- og kammertónleika bæði hér heima og erlendis og margsinnis leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og fleiri hljómsveitum. Hann hefur hlotið margar viðurkenningar m.a. tvívegis Íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins og 2009 var hann tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Sjá nánar á heimasíðu hans www.vikingurolafsson.com
Forsala aðgöngumiða á þessa tónleika er á skrifstofu Tónlistarskólans, sími 456 3925, kl. 10-15:00 virka daga. Miðaverð er kr. 2.000 en kr.1.500 fyrir eldri borgara og skólafólk 20 ára og yngri. Tryggið ykkur miða sem fyrst!

Fyrstu áskriftartónleikar félagsins verða sunnudaginn 17.október kl. 15. Þar koma fram Hinn heimsþekkti rússnesk-ísraelski píanóleikari Albert Mamriev (www.albertmamriev.com )heldur tónleika í Hömrum ásamt Selmu Guðmundsdóttur píanóleikara. Á tónleikunum kynnir Mamriev nýútkominn geisladisk sinn með Wagner-Liszt umritunum. Á efnisskránni eru píanóverk eftir Wagner, píanóumritanir Franz Liszt úr óperum Wagners og umritanir fyrir fjórhent sem Mamriev leikur ásamt Selmu Guðmundsdóttir. Á tónleikunum má m.a. heyra  forleikinn að Meistarasöngvurunum,  Siegfried Idyll og umritanir Hans von Bülow úr óperunum Tannhäuser og Tristan, einnig Polonaise sem Wagner skrifaði sjálfur fyrir fjórhent píanó.
Félagsgjald í Tónlistarfélagi Ísafjarðar er kr. 6.000 og er áskrift á 4 áskriftartónleika félagsins innifalið í félagsgjaldinu. Annars er miðaverð kr. 2.000 á staka tónleika – 1.500 fyrir eldri borgara. Þá hefur félagið oftast veitt skólafólki 20 ára og yngri ókeypis aðgang að áskriftartónleikum þess.

Aðrir tónleikar sem þegar eru komnir á tónleikadagskrá félagsins eru m.a. djasstónleikar í nóvember, klarinett/fiðla/píanó tríó í janúar, sópran/víóla/píanó tríó í febrúar og sópran/píanó í mars.

Þeir sem vilja ganga í félagið nú á haustdögum eru hvattir til að hafa samband við skólastjóra á sigridur@tonis.is eða hafa samband við formann félagsins Jón Pál Hreinsson jonpall@einarsson.com.
 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is