Skoðanakönnun

26. maí 2023 | Fréttir

Skoðanakönnun

Fyrir nokkrum vikum sendum við út könnun til forráðamanna og þökkum fyrir góð svör. Tilgangurinn var að finna út hvað fólk væri ánægt með og hvað við gætum gert betur.

Þegar á heildina er litið, var yfirgnæfandi meirihluti svarenda ánægður með skólann, kennara og stjórnendur. Það var einstaklega gaman að sjá hvað kennarar leggja sig fram og ummælin hvetjandi. En eins og við vonuðumst eftir, voru líka góðar ábendingar. Nokkrir svarenda sögðust ekki vera í nægilega miklum samskiptum við kennara og flestir vildu fá tölvupóst með góðum fyrirvara um viðburði, t.d. tónleika barnsins síns, en sumir kennarar nota önnur samskiptaform, messenger eða annað. Við höfum unnið í þessu.

Við höfum líka athugað að uppfæra vel hnapp á heimasíðunni hæ. megin sem heitir Viðburðir. Þar má fylgjast með t.d. nemendatónleikum, en einnig er tilgreindur umsjónarmaður hverra tónleika. Hins vegar eru nánast aldrei nemendur frá einum kennara á hverjum tónleikum. T.d. reynum við að setja systkini saman á tónleika, þó að þau spili á ólík hljóðfæri og þannig eru sumir kennarar viðriðnir marga tónleika. Það er um að gera að hafa samband við kennarann, eða skólastjórnendur ef þið þurfið að skipuleggja tíma ykkar og er farið að lengja eftir að vita um tónleikadaga. Við reynum líka allt hvað við getum að færa til eftir því sem hentar forráðamönnum best, og yfirleitt gengur það alltaf upp.

Margir forráðamenn sögðust aðstoða börnin við æfingar, oft, stundum eða sjaldan, en örfáir aldrei. Það er ákjósanlegt að koma með börnunum í fyrstu spilatíma haustsins og fá upplýsingar um hvernig er hægt að aðstoða heima við. Raunar eru forráðamenn alltaf velkomnir í spilatíma, hvenær sem er, allan veturinn.

Í fyrsta lagi er gott að ákveða í dagatali hvenær og hvað lengi er æft, hafa það ekki of strangt og fylgja því eftir þannig að hætt sé á réttum tíma. Það getur verið stressandi að hafa samviskubit yfir því að æfa sig ekki nóg, ef æfingar eru í lausu lofti. Ef farið er eftir tímaplaninu getur barnið verið sátt við að hafa gert sitt besta og á þá frí frá æfingum utan þeirra. Í öðru lagi er gott að fylgjast með æfingum og taka eftir því hvar koma torfærur, staðir þar sem alltaf er farið út af og stoppað. Æfingar ganga mun hraðar ef aðeins erfiði staðurinn er æfður, í stað þess að byrja lagið alltaf frá byrjun. Ýmislegt fleira má tína til, en auðvitað er hlýja og hvatning númer eitt. Það var einkar ánægjulegt að margir svarenda tilgreindu einmitt að kennarinn legði áherslu á þessi atriði í kennslunni. Við vissum auðvitað að við hefðum á að skipa úrvalskennurum, en gott að fá það staðfest.

Við hvetjum ykkur eindregið til að hafa samband við stjórnendur eða kennara ef ykkur liggur eitthvað á hjarta sem betur gæti farið í önn dagsins eða ef eitthvað hefur farið úrskeiðis. Það er okkur bæði ljúft og skylt og raunar kappsmál að greiða úr öllu sem getur farið betur.