Sinfónían sló í gegn á Ísafirði

28. október 2015 | Fréttir

Við Vestfirðingar fengum sannarlega frábæra gesti sl. mánudag, 26.október – sjálfa Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt fylgdarliði. Hljómsveitin notaði tímann vel, hélt tvenna tónleika auk þess sem nokkrir félagar tókju þátt í minningarathöfn um snjóflóðin á Flateyri fyrir 20 árum í Flateyrarkirkju.

Eftir hádegið á mánudag var leikskólabörnum og börnum í yngri bekkjum grunnskólanna boðið að kynnast hljómsveitinni með aðstoð tónlistarmúsarinnar Maximus músíkús og var það ákaflega vel heppnað og skemmtilegt.

Um kvöldið var öllum íbúum svæðisins boðið á glæsilega tónleika með fjölbreyttri dagskrá: mjög áheyrilegt verk eftir stjórnandann Daníel Bjarnason, hinn undurfagri klarinettkonsert Mozarts þar sem hin geysiflinka Arngunnur Árnadóttir lék einleikinn, og loks hin áhrifamikla 4.sinfónía Tsjaíkovskís, þar sem hljómsveitin og stjórnandinn fóru á kostum.

Vestfirðingar létu sitt ekki eftir liggja, þökkuðu fyrir heimsóknina með geysigóðri aðsókn, á kvöldtónleikunum voru um 650 manns og nokkur hundruð börn á barnatónleikunum, þannig að kannski hefur um þriðjungur íbúanna hér sótt sinfóníutónleika þennan dag! Og móttökurnar voru líka góðar, klappinu ætlaði aldrei að linna og ljóst að fólkið hérna kann svo sannarlega að meta heimsóknir af þessu tagi.

Sinfóníuhljómsveitin og aðstandendur hennar eiga bestu þakkir skildar fyrir þessa skemmtilegu heimsókn – komið sem fyrst aftur!