PÍANÓRÓMANTÍK Í HÖMRUM

11. október 2010 | Fréttir

Nk. sunnudag 17.október kl. 15:00 heldur Tónlistarfélag Ísafjarðar sína fyrstu áskriftartónleika á þessu starfsári. Þar verða tveir stórpíanistar á ferð,  rússnesk-ísraelski píanóleikarinn Albert Mamriev og Ísfirðingurinn Selma Guðmundsdóttir.
Á fyrri hluta efnisskrárinnar leika þau fjórhent á píanó umritanir á nokkrum verka Richards Wagners, m.a. Siegfried Idyll og forleikina að Tristan og Ísold og Meistarasöngvurunum, og Polonaise eftir Wagner en einnig verk eftir þýska tónskáldið Klaus Ager. Eftir hlé leikur Albert 5 einleiksverk eftir Franz Liszt og umritanir Liszts á 2 atriðum úr óperunni Tannhäuser eftir Wagner.

Sem sagt stórbrotin tónlist stórkostlegra snillinga, sem ekki heyrist flutt hér á hverjum degi!
Tónleikarnir eru sem fyrr segir áskriftartónleikar og áskriftarkort gilda. Miðasala er einnig við innfganginn, miðar kosta 2.000 og kr. 1.500 fyrir ellilífseyrisþega, en skólafólk 20 ára og yngra fær ókeypis aðgang.

Albert Mamriev er talinn einn af helstu píanóleikurum í Ísrael og hefur unnið til verðlauna í fjöldamörgum alþjóðlegum píanókeppnum,  Hann fæddist í Lýðveldinu Dagestan (Rússneska sambandinu) inn í tónelska fjölskyldu. Hann fékk fyrstu leiðsögn sína frá föður sínum, Jankil Mamriev, sem var þekktur tónlistarmaður og kennari. Árið 1984 hóf Albert Mamriev nám í hinum virta Miðjutónlistarskóla við Tónlistarháskólann í Moskvu hjá kennaranum Aleksandr Bakúlov. Á árunum 1993 til 1995 nam hann hjá Sergei Dorenskíj í Tsjaíkovskíj-tónlistarháskólanum í Moskvu. Frá árinu 1995 hélt hann áfram námi hjá prófessor Arie Vardi í Ísraelsku tónlistarakademíunni við háskólann í Tel Aviv og lauk þaðan prófgráðunum B. Mus. og M. Mus. með vitnisburðinum magna cum laude. Frá árinu 2003 hefur Albert Mamriev búið í Hannover í Þýskalandi lauk þar síðustu prófgráðu sinni í Tónlistar- og leiklistarháskólanum í Hannover, einnig hjá Arie Vardi. Hann er nú dósent við þennan skóla. Nýlega hefur hann komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveitinni í Utah, Konunglegu skosku þjóðarhljómsveitinni, Ísraelsku kammersveitinni, Sinfóníuhljómsveit Mexíkó, Gulbenkian-sinfóníuhljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveitinni í Jerúsalem, Sinfóníuhljómsveitinni í Pretoria, Fílharmóníusveitinni í Haifa og Zhengen-sinfóníuhljómsveitinni.
Á liðnum árum hefur Albert Mamriev komið fram í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Spáni, Kína, Frakklandi, Ísrael og Ungverjalandi. Efnisskrá ársins 2006 var helguð 195. afmælisári Liszts og innihélt allar útsetningar Liszts fyrir píanó af verkum Wagners. „Draumur minn er að leika tónlist Wagners á píanó á fegurri og litríkari hátt en hljómsveit,“ segir Albert Mamriev.

Selma Guðmundsdóttir hóf tónlistarnám á Ísafirði og lauk síðar einleikaraprófi frá Tónlistarskólann í Reykjavík. Framhaldsnám  stundaði hún í Salzburg og í Hannover, Frakklandi og F Tékkóslóvakíu. Bjó í 5 ár í Stokkhólmi og starfaði m.a. við Tónlistarskóla Sænska útvarpsins.
  Selma hefur haldið fjölda einleikstónleika bæði hér heima og erlendis, leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Þrándheimi og komið margsinnis fram í útvarpi og sjónvarpi.  Selma hefur starfað mikið með öðrum hljóðfæraleikurum og söngvurum og oft leikið  með Kammersveit Reykjavíkur hér heima og erlendis.  Hún hefur gefið út nokkra geisladiska, bæði ein og með öðrum. Selma hefur margsinnis komið fram í útvarpi og sjónvarpi. Hún starfar sem píanókennari við Tónlistarskólann í Reykjavík og meðleikari við Listaháskóla Íslands. Hún var einn af stofnendum Richard Wagner félagsins á Íslandi árið 1995 og hefur verið formaður þess frá upphafi.