Píanóið enn vinsælast

4. september 2009 | Fréttir

Á skólasetningu T.Í. á miðvikudagskvöld kom m.a. fram í ávarpi Sigríðar Ragnarsdóttur skólastjóra, að píanóið heldur velli sem vinsælasta hljóðfærið, síðan koma gítar og bassi fast á eftir, síðan öll hin hljóðfærin og söngurinn í kjölfarið. Einn nemandi sótti um tónfræðinám eingöngu, en slíkt er mjög óvenjulegt.

Kennarar við skólann eru 17 til áramóta, en fjórir kennarar við skólann eru nú í námsleyfi. Þrír þeirra koma til starfa eftir áramót, þau Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og tónlistarhjónin Raivo og Krista Sildoja, sem starfa á Þingeyri, en Sig. Friðrik Lúðvíksson verður fjarverandi í allan vetur.
Umsóknum um skólavist hefur fækkað í 237 úr 265 á sama tíma í fyrra, sem á sér nokkrar skýringar. Talsverður niðurskurður hefur verið á fjárveitingum til skólans, efnahagshrunið hefur haft mikil áhrif á fjárhag heimilanna og efalítið hætta einhverjir þess vegna. Forskólinn hefst ekki fyrr en eftir jól, en í honum voru 15 börn í fyrra og kennsla á Þingeyri hefur enn ekki verið auglýst. Það má því búast við nokkurri fjölgun eftir áramót, þegar Sildoja-hjónin koma aftur til starfa á Þingeyri og Bjarney Ingibjörg byrjar aftur að kenna forskóla.
Engir biðlistar eru eftir skólavist enda hefur skólinn lagt sérstaka áherslu að breyta kennslufyrirkomulagi þannig að sem flestir geti fengið inngöngu, stytt tíma styst komnu nemendanna og reynt að hagræða kennslunni með ýmsum hætti.
Á skólasetningunni flutti Hulda Bragadóttir einnig hugvekju, Jónas Tómasson lék á flautu og Iwona Kutyla sá um söng- og dansatriði með sonum sínum þremur.
Meðf. mynd var tekin á skólasetningunni en á henni sjást þrír nemendur skólans, bræðurnir Nikodem Júlíus, Mikolaj Ólafur og Maksymilian Haraldur dansa og syngja pólsk þjóðlög og -dansa við mikla hrifningu áhorfenda.