Óperettueinleikurinn slær í gegn

20. september 2015 | Fréttir

Óhætt er að segja að óperettueinleikurinn "Eitthvað sem lokkar og seiðir…." um óperettustjörnuna ísfirsku, Sigrúnu Magnúsdóttur, hafi slegið rækilega í gegn.

Uppselt var á 1. sýningu og svo strax á aðra sýningu og ríkti greinilega mikil ánægja og hrifning meðal áhorfenda. Hinn mikli frumkvöðull íslensks sönglífs og óperustarfsemi, Garðar Cortes, mætti á frumsýningu öllum að óvörum, og var hann afskaplega ánægður með framtakið.  Hvatti hann aðstandendur Óperu Vestfjarða til að halda óhikað áfram í viðleitni sinni til að efla söng- og óperuáhuga á svæðinu. Þá voru margir nánir ættingjar Sigrúnar Magnúsdóttur á frumsýningunni og þökkuðu hjartanlega fyrir framtakið með blómagjöfum og ræðuhöldum.

 

Það er hinn óþreytandi  Elfar Logi Hannesson sem samdi leikgerðina og leikstýrir sýningunni, en óperusöngkonan Sigrún Pálmadóttir sem syngur hlutverk Sigrúnar með dyggri aðstoð Beötu Joó á píanóið. Sigrún heillaði alla áheyrendur upp úr skónum í hlutverki nöfnu sinnar, með geislandi framkomu, töfrandi leik og glæsilegum söng. 

 

Ópera Vestfjarða stefnir að aukasýningum á óperettueinleiknum, en óvíst er hvenær þær verða á dagskránni. Vonandi skýrist það á næstu dögum.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is