NÓTAN – svæðistónleikar í Stykkishólmi á laugardag

10. mars 2011 | Fréttir

NÓTAN – uppskeruhátíð tónlistarskólanna – verður haldin í annað sinn um allt land nú í marsmánuði. Eftir forval í hverjum tónlistarskóla koma fulltrúar skólanna fram á svæðistónleikum sem haldnir eru á fjórum stöðum á landinu: Höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi/Vestfjörðum, Norður/Austurlandi og Suður/Suðvesturlandi. Á svæðistónleikunum velur sérstök dómnefnd nokkur atriði sem fá sérstakar viðurkenningar og örfá atriði sem fá rétt til að leika á lokatónleikum hátíðarinnar sem haldnir verða i Reykjavík 26.mars.

 

Svæðistónleikarnir fyrir Vesturland, Vestfirði og V-Húnavatnssýslu fara fram í Stykkishólmskirkju nk. laugardag 12.mars og hefjast kl. 13.15. Tónlistarskóli Ísafjarðar sendir tvö atriði á tónleikana: Elma Sturludóttir syngur lag eftir Grieg með aðstoð Beötu Joó á píanó. Linda Björg Guðmundsdóttir flytur lagið „Blindfolded“, eigið lag og texta. Hún syngur lagið og leikur með á píanó en einnig eru henni til aðstoðar Aron Ottó Jóhannsson á selló og bakraddirnar Beáta Joó, Elma Sturludóttir og ingunn Ósk Sturludóttir.

 

Í fyrra voru svæðistónleikarnir haldnir á Hólmavík og Tónlistarskóli Ísafjarðar átti 4 atriði á þeim tónleikum. Þrjú atriðanna hlutu sérstaka viðurkenningu og eitt atriðið  hafnaði á lokatónleikunum í Reykjavík. Það voru þær Hanna Lára Jóhannsdóttir og Kristín Harpa Jónsdóttir sem léku saman á 2 píanó (á Hólmavík raunar á píanó og hljómborð eins og sjá má af meðf.mynd).

 

Þátttökuskólar í svæðistónleikunum á laugardag eru þessir:

Tónlistardeild Auðarskóla í Dölum

Tónlistardeild Hólmavíkurskóla

Tónlistarskóli Borgarfjarðar

Tónlistarskóli Ísafjarðar

Tónlistarskóli Snæfellsbæjar

Tónlistarskóli Stykkishólms

Tónlistarskólinn á Akranesi

Tónlistarskóli V.Húnvetninga.

 

Uppskeruhátíðin NÓTAN er opin öllum tónlistarnemendum og hefur engin aldursmörk. Þátttakendum er skipað í flokka eftir áfangaskiptingu aðalnámskrár tónlistarskóla þ.e. í grunnnám, miðnám og framhaldsnám. Allar stíltegundir tónlistar og hljóðfærasamsetningar eru gjaldgengar, einungis þarf að taka mið af áfangaskiptingu aðalnámskrár.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is