Sunnudaginn 17.febrúar nk. kl.17:00 verður hið þekkta kirkjutónverk MIsa Criolla flutt í Ísafjarðarkirkju. Flytjendur eru Kvennakór Ísafjarðar ásamt félögum úr Karlakórnum Erni undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur. Einsöngvari með kórnum er Ylfa Mist Helgadóttir, en hljóðfæraleikarar eru Sig. Friðrik Lúðvíksson gítar, Stefán Baldursson charango, Samúel Einarsson bassi, Tuuli Rähni píanó og á slagverk leika þeir Ísak Emanúel Róbertsson og Valgeir Skorri Vernharðsson.
Ariel Ramirez var eitt fremsta og þekktasta tónskáld Argentínu á 20.öld, en hann lést tæplega níræður að aldri árið 2010 eftir langan og farsælan feril. Frægasta verk hans er einmitt Misa Criolla sem hefur notið gífurlegra vinsælda um allan heim og komið út á hljómplötum í milljónum eintaka. Ramirez samdi verkið á árunum 1963-1964 en innblásturinn í verkið fékk hann mörgum árum fyrr er hann heimsótti nunnuklaustur í Þýskalandi á 6.áratugnum. Nunnurnar lýstu fyrir honum hvernig þær hefðu með matargjöfum hjálpað þýskum gyðingum í útrýmingabúðum skammt frá í heimsstyrjöldinni. Frásagnir nunnanna og fagur söngur þeirra fylltu Ramirez löngun til að semja lofsöng til lífsins, frelsisins, mannkynsins og kærleikans og þannig varð hugmyndin um Misa Criolla til.
Verkið byggir mjög á argentínskri þjóðlagahefð í bland við þjóðlög og hljóðfæri frá Andesfjöllum en við hefðbundna messutexta Kyrie, Gloria, Credo, Sanctus og Agnus Dei. Sungið er á spænsku en Ramirez mun hafa verið fyrstur manna til að nota "veraldlegt" tungumál við messutónverk, eftir að Vatíkanið leyfði slíkt árið 1963. Misa Criolla þýðir Kreólsk messa, og vísar nafnið til fólks sem á rætur að rekja til bæði Evrópumanna og indíánaþjóða Suður-Ameríku, en tónlist verksins sameinar á afar frumlegan hátt hefðir evrópskrar og suður-amerískrar tónlistar.Hver kafli messunnar byggir á sérstöku þjóðlagaefni, einkum dansrytmum, frá mismunandi héruðum S-Ameríku, aðallega frá Argentínu og Bólivíu. Misa Criolla er af mörgum talið mikilvægasta trúarlega tónverk Suður-Ameríku.
Á þessari slóð http://www.youtube.com/watch?v=da9x0ZxtG3k má heyra Gloriu-kaflann úr messunni.