Minningartónleikarnir tókust afar vel

12. október 2016 | Fréttir

Hinir árlegu minningartónleikar um hjónin Sigríði Jónsdóttur og Ragnar H. Ragnar voru haldnir í Hömrum sunnudaginn 9.október kl. 17:00. Húsfyllir var á tónleikunum og var listafólkinu tekið einstaklega vel enda glæsilegir tónleikar. Það var ísfirski fiðluleikarinn Hjörleifur Valsson sem dró bgann svo listilega á fiðluna sína og með honum framúrskarandi píanóleikari ættuð frá Kýpur, Ourania menelaou.  Efnisskráin sem þau léku var ekkert blávatn, hvert stórvirkið á fætur öðru, en líklega er óhætt að segja að fiðlusónata george Antheil, sem þau fluttu eftir hlé, hafi vakið hvað mesta athygli og hrifningu áheyrenda. Tónlistarskóli Ísafjarðar er ákaflega stoltur af þessum fyrrum nemanda sínum, sem hefur náð svo langt á listabrautinni og óskar honum alls góðs í framtíðinni. Hjörleifur býr nú í Noregi þar sem hann starfar sem listamaður við góðan orðstír.