Mikolaj Frach í 2.sæti í Chopinkeppninni

7. desember 2010 | Fréttir

Ungur ísfirskur tónlistarnemi, Mikolaj Ólafur Frach, náði afar góðum árangri í Chopin-keppni Aðalræðisskrifstofu Lýðveldisins Pólland sem haldin var í Reykjavík 29.nóvember síðastliðinn. Keppnin var ætluð nemendum tónlistarskóla á Íslandi og haldin í tilefni alþjóðlegs Chopin-árs. Keppt var um túlkun valinna tónverka eftir pólska tónskáldið Fryderyk Chopin (1810-1849) og var keppt í þremur hlutum, einleik á píanó, kammertónlist og söng. Mikolaj flutti Polonaise eftir Chopin í píanóhluta keppninnar og hlaut annað sætið ásamt öðrum nemanda, en alls tóku 18 nemendur þátt í þeim hluta. Mikolaj lék einnig á píanó með yngri bróður sínum, Nikodem Júlíusi, í sönghluta keppninnar, en þeir bræður voru yngstu þátttakendurnir.
Mikolaj Ólafur er sonur pólsku tónlistarhjónanna Janusz og Iwonu Frach, sem hafa starfað við Tónlistarskóla Ísafjarðar frá árinu 1994. Hann fæddist á Ísafirði sumarið 2000 og er því aðeins 10 ára gamall.  Hann hefur lagt stund á píanó í nokkur ár hjá móður sinni, hefur margsinnið komið fram á tónleikum skólans og leikið með strengjasveit skólans. Mikolaj er afar duglegur og samviskusamur nemandi og vel að verðlaununum kominn. Hann mun koma fram á tónleikum í Salnum 17.desember kl.19:00 ásamt öðrum sigurvegurum keppninnar

Þess má geta að í sönghluta Chopin-keppninnar sigraði ungur bassasöngvari, Kristján Ingi Jóhannesson, en hann er ættaður frá Flateyri og foreldrar hans búa á Ísafirði.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is