Lúðraþytur og rokk í kirkjunni

4. maí 2015 | Fréttir

Vortónleikaröð Tónlistarskóla Ísafjarðar hefst með hinum árlegu vortónleikum lúðrasveita skólans í Ísafjarðarkirkju miðvikudagskvöldið 6.maí og hefjast kl. 20. Á tónleikunum koma fram þrjár lúðrasveitir skólans: Skólalúðrasveit T.Í. sem skipuð er nemendum á grunnskólaaldri sem stunda nám við skólann, Miðsveitin sem er skipuð lengra komnum nemendum og Lúðrasveit T.Í. sem er skipuð blásurum á ýmsum aldri sem margir hafa mikla reynslu í farteskinu.

Þá koma fram á tónleikunum tvær rokk/popphljómsveit sem tengjast skólanum að öllu eða nokkru leyti. Hljómsveitin Thoughtful Sirens er skipuð nemendum Tónlistarskóla Ísafjarðar og hljómsveitin Rythmatik,sem sigraði Músíktilraunir í síðasta mánuði. Kynnir á tónleikunum verður hinn eldhressi Veturliði Snær Gylfason.

Dagskráin á tónleikunum er þannig í léttari kantinum og afar fjölbreytt, en það er hinn ötuli eistlenski tónlistarmaður Madis Mäekalle sem hefur undirbúið þessa tónleika og stjórnar öllum sveitunum og hefur einnig útsett og aðlagað flest lögin.

Tónleikarnir verða sem áður sagði í Ísafjarðarkirkju og hefjast kl. 20. Aðgangseyrir að tónleikunum er kr. 1.000 en ókeypis fyrir börn 12 ára og yngri.