Listaháskólanemar koma í árlega heimsókn til Ísafjarðar

21. september 2011 | Fréttir

Það er mikið fjör í Tónlistarskóla Ísafjarðar þessa dagana, skólastarfið er komið á fullt og margt skemmtilegt framundan.

Á mánudaginn kemur, 26.september, er von á 22 nýnemum í tónlistardeild  Listaháskóla Íslands og ætla þau að dvelja á Ísafirði í nokkra daga við nám og leik. Hér sækja þau námskeið í „Skapandi tónlistarmiðlun“ en hluti af námskeiðinu felst í að vinna með börnum og unglingum og verða nemendur  úr Tónlistarskóla Ísafjarðar virkir þátttakendur í þeim hluta námskeiðsins.

„Skapandi tónlistarmiðlun“ er námsgrein sem mjög hefur rutt sér til rúms á síðustu árum og á að veita innsýn í heim tónspuna  og óhefðbundinnar tónistarmiðlunar  til  að virkja og vekja sköpunarhæfileika nemenda.  

Kennarar á námskeiðinu eru Sigurður Halldórsson og Jón Gunnar Biering Margeirsson og einnig koma við sögu nokkrir meistaranemar Listaháskólans  en í í þeim hópi nú er einmitt tónlistarmaðurinn Mugison.

Komin er föst hefð fyrir því að nýnemar í tónlistardeild LHÍ heimsæki Ísafjörð á haustdögum og er tilgangur dvalarinnar tvíþættur. Annars vegar að hrista hópinn saman  og  hins vegar að nemarnir kynnist menningu og mannlífi utan borgarmarka reykjavíkur. Aðstaða fyrir nemana í Tónlistarskóla Ísafjarðar er afar góð og hefur hópurinn jafnan notið fyrirgreiðslu og velvildar ýmissa aðila í bænum. Þannig eiga margir af fremstu ungu tónlistarmönnum í dag frábærar og ógleymanlegar minningar héðan frá Ísafirði. 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is