Tónlistarneminn Kristín Harpa Jónsdóttir komst í 5 manna úrslit 1.flokki í píanókeppni Íslandsdeildar EPTA (Evrópusambands píanókennara) sem fram fer í Salnum í Kópavogi þessa dagana. Úrslitin fara fram á laugardag og leikur Kristín Harpa þar  Impromptu í As-dúr op.142 nr. 2 og nokkur lög eftir rússneska tónskáldið Kabalevsky.

 

Um 40 nemendur víðsvegar að af landinu taka þátt í öllum þremur flokkum keppninnar en fimm nemendur komust áfram í hverjum flokki. Í þessum flokki 16 píanónemar af öllu landinu á aldrinum 14 ára og yngri, þar á meðal þrír aðrir píanónemendur frá Tónlistarskóla Ísafjarðar, þau Sóley Ebba Johansd. Karlsson, Aron Ottó Jóhannsson og Hanna Lára Jóhannsdóttir. Ísfirðingarnir vöktu allir mikla athygli fyrir frábæra frammistöðu í keppninni á miðvikudag, ekki síst fyrir flutninginn á skylduverkinu sem allir þátttakendur í þeirra flokki léku,en það er nýtt íslenskt verk eftir Tryggva Baldvinsson, Hugleiðing um íslenskt þjóðlag.

Tónlistarskóli Ísafjarðar óskar þeim og kennara þeirra, Beötu Joó, innilega til hamingju með glæsilegan árangur.