Jónas Tómasson hlaut starfslaun í 1 ár

23. janúar 2013 | Fréttir

Nýlega var úthlutað starfslaunum listamanna fyrir árið 2013 og var Jónas Tómasson tónskáld á Ísafirði einn þeirra sem þau hlutu. Honum voru úthlutuð starfslaun í 12 mánuði, en þetta er í 4.sinn sem hann fær slík starfslaun, síðast árið 2001 og þá í 24 mánuði.
Jónas fæddist á Ísafirði árið 1946 en ólst að mestu upp í Bandaríkjunum og í Reykjavík. Hann stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum í Reykjavík  á árunum 1958-1961 og aftur 1966-1969, m.a. tónsmíðar hjá Jóni Þórarinssyni og Þorkatli Sigurbjörnssyni. Hann fór til framhaldsnáms í tónsmíðum og flautuleik við Sweelinck-tónlistarháskólann í Amsterdam 1969-1972 þar sem aðalkennarar hans voru Ton de Leeuw, Leon Orthel og Jos Kunst. Síðar stundaði hann nám í tónvísindum í München í tvo vetur.
Jónas settist að á Ísafirði árið 1973 og hefur að mestu  búið og starfað þar síðan.Tónsmíðar hafa jafnan verið hans aðalstarf en hann kenndi flautuleik og tónfræðigreinar  við Tónlistarskóla Ísafjarðar í meir en 30 ár en er nú að mestu hættur kennslu. Hann starfaði við kór- og hljómsveitarstjórn á Ísafirði um árabil, auk þess sem hann kom fram sem flautuleikari við ótal tækifæri.  Jónas hefur einnig annast tónleikahald fyrir Tónlistarfélag Ísafjarðar í fjölda ára. Á menntaskólaárunum í Reykjavík stofnaði Jónas þjóðlagadúó ásamt skólafélaga sínum Heimi Sindrasyni sem varð mjög þekkt og gáfu þeir m.a. út tvær hljómplötur sem urðu metsöluplötur á þeim tíma.

Jónas hefur verið mikilvirkur í tónsmíðum sínum og hefur samið verk af fjölbreyttasta tagi, sinfónísk verk, konserta, kirkjulega tónlist, og fjölda kammerverka, kórverka, einleiksverka og sönglaga. Nokkur helstu hljómsveitarverk hans eru  Sinfóníettur 1-8,  Concerto Midi (f.2 píanó og hljómsveit), píanókonsertinn Concerto Kraków, og hljómsveitarverkin Skerpla og Í rauðum görðum. Meðal  helstu kammerverka hans eru 23 „Sónötur“, sem eru kammerverk fyrir ólíka hljóðfærahópa, Rapsódía, Furioso, Sjö bagatellur, Serena et Aube og La belle jardiniere. Helstu kirkjutónverk hans eru Lúkasaróratória I-II, Missa tibi laus, Missa brevis, 23.Davíðssálmur og Sjö orð Krists.  Meðal söngverka hans má nefna Kantötur 1-V fyrir einsöngvara eða kóra ásamt hljóðfæraleikurum en hann hefur líka samið fjölda einstakra sönglaga og ljóðaflokka.  Nokkur verka hans hafa hlotið opinberar viðurkenningar, m.a. hlaut hljómsveitarverkið Ellefu hugleiðingar um landnám verðlaun Þjóðhátíðar 1974 og árið 2003 var Sinfóníetta I tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Mörg verka Jónasar eru samin eftir pöntun frá hljóðfæraleikurum/hljóðfærahópum, eða með ákveðna tónlistarflytjendur í huga. Þá hefur hann samið fjöldamörg verk fyrir tónlistarmenn og kóra á Ísafirði, bæði kirkjuleg og veraldleg. Kirkjutónverkin Missa brevis og Sjö orð Krists voru t.d. samin með Sunnukórinn sérstaklega í huga, sömuleiðis tónverkið Mold og dagar sem er eins konar svíta með kórsöng, upplestri og hljóðfæraleik og líka mörg fleiri lög, síðast í fyrravor nokkur kórlög við spænska texta. Jónas samdi ný verk og gerði útsetningar af ýmsu tagi fyrir Kammersveit Vestfjarða sem hér starfaði í allmörg ár. Einnig hefur hann samið og útsett fjölda laga fyrir nemendur og tónlistarhópa Tónlistarskóla Ísafjarðar gegnum árin. Orgelverkið Dýrð Krists var pantað fyrir vígslu orgels Ísafjarðarkirkju og kom út á sérstökum hljómdiski í flutningi Harðar Áskelssonar, en mörg fleiri verka Jónasar hafa komið út á diskum. Íslensk tónverkamiðstöð gaf út sérstakan disk helgaðan verkum hans fyrir nokkrum árum.

Meðal nýjustu verka Jónasar eru píanókonsertinn Hanami og flautukonsertinn Caballo de cuatro lunas, sem báðir verða frumfluttir á Myrkum músíkdögum í byrjun febrúar 2013. Önnur verk sem eru í vinnslu þessa dagana eru m.a. Via crucis (f.kontratenór/alt og 3 klarinett), Dimmufugl (músíkteater), einsöngslög við ljóð Óskars Árna Óskarssonar, Messa f.6 einsöngvara og strengjasveit og Sinfóníetta nr.9.

Jónas var útnefndur bæjarlistamaður Ísafjarðar árið 2000, sá fyrsti sem hlaut þá nafnbót.