Innritun á Þingeyri á miðvikudag

4. september 2009 | Fréttir

Nokkur óvissa hefur ríkt um tónlistarkennsluna í útibúi Tónlistarskóla Ísafjarðar á Þingeyri eftir að ljóst varð að tónlistarhjónin  Krista og Raivo Sildoja yrðu í leyfi erlendis til áramóta. Nú hefur hinn fjölhæfi  tónlistarkennari Lech Szyszko fallist á að fara einu sinni í viku til Þingeyrar (á miðvikudögum) og kenna þeim sem áhuga hafa fram að jólum.  Boðið er upp á kennslu á gítar, píanó, blokkflautu, þverflautu og jafnvel fleiri blásturshljóðfæri.

Í haust verður tónlistarkennslan á Þingeyri flutt um set, úr Aðalgötu 37 í Félagsheimilið á Þingeyri . Ísafjarðarbær hefur látið gera þar upp tvö herbergi baksviðs fyrir tónlistarskólann og eru þær viðgerðir langt komnar. Nemendur í 10.bekk Grunnskólans á Þingeyri  ásamt fleirum fluttu eigur tónlistarskólans í félagsheimilið nú í vikunni, en það var Rakel Brynjólfsdóttir sem hafði umsjón með þeim flutningum eins og fleiru viðkomandi málefni skólans í fjarveru Sildojahjónanna.
Í næstu viku, nánar tiltekið miðvikudaginn 9.september kl. 16-18, munu Lech  og Sigríður Ragnarsdóttir skólastjóri verða þar til viðtals og veita upplýsingar um námið og tilhögun þess. Áhugasamir eru endilega hvattir til að mæta og tryggja sér tíma – ekki gleyma stundatöflum úr öðrum skólum!

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is