Helgi Björnsson og Jón Ólafsson halda tónleika í Hömrum

15. apríl 2011 | Fréttir

Skemmtidagskrá verður haldin í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar að kvöldi skírdags . Þá mun tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson, oftast kenndur við hljómsveitina Nýdönsk, fá til sín góðan gest í spjall og saman munu þeir slá á létta strengi og taka nokkra slagara. Gestur kvöldsins verður enginn annar en Ísfirðingurinn Helgi Björnsson. Jón þykir ná einstöku sambandi við viðmælendur sína og áhorfendur virðast kunna vel að meta nálægðina við listamennina. Jón og Helgi fara í gegnum vinsælustu lög og texta Helga og áhorfendur fá að heyra um eitt og annað forvitnilegt frá litríkum ferli söngvarans. Þeim til aðstoðar í nokkrum lögum verður bassaleikarinn knái Valdimar Olgeirsson frá Bolungarvík.

Af fingrum fram er yfirskrift kvöldstunda sem Jón Ólafsson stýrir og haldin hafa verið síðustu misseri við frábærar undirtektir. Nafnið er fengið úr samnefndum sjónvarpsþáttum sem RÚV sýndi í þrjá vetur fyrir nokkrum árum við miklar vinsældir. Af fingrum fram hefst kl. 20.00, fimmtudagskvöldið 21. apríl. Miðaverði er stillt í hóf og kostar því 2.000 kr. á þennan viðburð. Miðar verða eingöngu seldir við innganginn. Atburður þessi er hluti af Aldrei fór ég suður dagskránni.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is