Helga Kristbjörg er Harmóníkumeistari S.Í.H.U. 2010

19. apríl 2010 | Fréttir

Sl laugardag fór fram í Garðabæ harmóníkukeppni á vegum Sambands íslenskra harmóníkuunnenda. Keppt var í 3 aldursflokkum og tók einn Ísfirðingur, Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir, þátt í keppninni og keppti í elsta flokknum, 17 ára og eldri. Helga Kristbjörg sigraði örugglega í sínum flokki og er þar með orðin Harmóníkumeistari S.Í.H.U 2010. Tónlistarskólinn er afar stoltur af þessum fyrrum nemanda sínum (og kennara) og óskar henni og fjölskyldu hennar innilega til hamingju með sigurinn.

 

Helga Kristbjörg hefur glatt vestfirska áheyrendur með harmóníkuleik sínum um árabil.   Síðustu 3 vetur hefur hún verið í Listaháskóla Íslands og lýkur þaðan B.Mus.prófi í vor. Hún heldur einmitt útskriftartónleika í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík laugardagskvöldið 8.maí kl. 20:00, en hún er fyrsti nemandinn sem lýkur háskólaprófi í harmóníkuleik frá Listaháskólanum.

Helga Kristbjörg stundaði tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar nær óslitið frá 1995-2007 þar sem aðalnámsgrein hennar var harmóníka. Fyrstu 4 árin naut hún leiðsagnar Messíönu Marzellíusdóttur en síðan tók Vadim Fedorov við kennslunni og kenndi henni að mestu til ársins 2006. Haustið 2004 stundaði Helga nám í tónlistarskólanum la CNIMA í Frakklandi. Veturinn 2006-2007 var Hrólfur Vagnsson kennari hennar við skólann.  Helga stundaði einnig píanónám í nokkur ár við skólann og var Beáta Joó kennari hennar í píanóleik.

Tatu Kantomaa var harmóníkukennari hennar við LHÍ fyrsta veturinn en síðan hefur hún notið leiðsagnar síns gamla kennara Vadims Fedorov.