Gjöf frá Kiwanisklúbbnum Básum á Ísafirði

9. maí 2023 | Fréttir

Á myndinni eru Bergþór skólastjóri, Sara Hrund útibússtjóri og Kristján Andri Guðjónsson frá Kiwanisklúbbnum Básum.

Gjöf frá Kiwanisklúbbnum Básum á Ísafirði

Það er gott að eiga góða að. Kiwanisklúbburinn Básar hér á Ísafirði ákvað að veita okkur styrk til að kaupa gott rafmagnspíanó á Suðureyri. Það kom sér aldeilis vel. Við höfum haft aðstöðu í Grunnskólanum á Suðureyri, en eins og kunnugt er, greindist mygla í skólahúsnæðinu og síðan hefur verið kennt víða í plássinu. Nú voru góð ráð dýr. Sara Hrund Signýjardóttir útibússtjóri Tónlistarskólans á Suðureyri hefur staðið í ströngu, en hún er hörð af sér stelpan, sér ekki vandamál, bara lausnir, og kenndi í svefnherberginu sínu um tíma. Sem betur fer hljóp þó sr. Fjölnir Ásbjörnsson undir bagga með okkur, eins og oft áður og veitti okkur leyfi til kennslu í kirkjunni. En þar sem öll hljóðfæri voru í Grunnskólanum, var ekki hægt að nota þau, svo að þetta hljóðfæri kom á hárréttum tíma. Það er líka létt, svo að auðvelt er að flytja það, t.d. þegar tónleikar eru. Við færum Kiwanisklúbbnum Básum bestu þakkir fyrir auðsýndan vinarhug.

Á efri myndinni eru Bergþór skólastjóri, Sara Hrund útibússtjóri og Kristján Andri Guðjónsson frá Kiwanisklúbbnum. Júlía kom svo í flaututíma og mynduðu Sara Hrund og Bergþór hljómsveit með henni og skemmtu sér konunglega.

Júlía í flaututíma hjá Söru Hrund og Bergþór spilar með þeim á hljómborðið

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is