Fréttir af „gömlum“ nemendum

7. desember 2012 | Fréttir

Fjölmargir nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar hafa farið í framhaldsnám í tónlist og gert tónlist að atvinnu sinni.  Á undanförnum árum hafa margir Ísfirðingar lagt leið sína í Listaháskóla Íslands eða Tónlistarskóla FÍH og jafnan vakið athygl fyrir góða frammistöðu. Það er jafnan forvitnilegt að fylgjast með ferli og árangri þessara efnilegu krakka sem gerðu okkur svo oft glaðan dag með tónlist sinni og eiga vonandi eftir að halda því áfram. Hér er til gamans smásamantekt um nokkra þá tónlistarnema sem hafa verið að hasla sér völl utan Ísafjarðar síðustu árin.

 

Nú stunda tvær stúlkur héðan að vestan nám við tónlistardeild LHÍ, Linda Björg Guðmundsdóttir sem er á öðru ári  í Mennt og miðlun, og Helga Margrét Marzellíusardóttir sem er í einsöng sem aðalgrein og lýkur námi í  vor. Helga Margrét hefur starfað við kórstjórn meðfram náminu, m.a. stjórnar hún Hinsegin kórnum, sem hefur vakið talsverða athygli. Hún söng nýlega einsöng í flutningi Háskólakórsins og Ungfóníunnar á Messu í As-dúr eftir Schubert á tónleikum í Langholtskirkju.


Smári Alfreðsson saxófónleikari er kominn ítil Kaupmannahafnar eftir nokkurra ára nám við Tónlistarskóla FÍH og er þar í tónlistarnámi meðfram námi í grafískri hönnun.


Halldór Smárason sem lauk B.Mus. námi frá LHÍ sl. vor, stundar nám í tónsmíðum við The Manhattan School of Music í New York.  Tónsmíðar Halldórs hafa þegar vakið talsverða athygli, Tríó Reykjavíkur frumflutti verk eftir hann í fyrravetur, sömuleiðis Sinfóníuhljómsveit unga fólksins í fyrravor, og nú í janúar mun CAPUT-hópurinn frumflytja verk eftir hann.  Þá hafa verið flutt verk eftir hann í Bandaríkjunum.  

 

Halldór Sveinsson lauk prófi frá Listaháskólanum vorið 2011 og var síðan eitt ár við nám í djassfiðlu við virtan djassskóla í Berlín. Hann er nú fluttur heim til Íslands og kennir píanóleik, fiðluleik og tónfræðigreinar við Tónskóla Eddu Borg auk þess sem hann stundar djassnám við Tónlistarskóla FÍH.


Freysteinn Gíslason rafbassaleikari tók lokapróf frá Tónlistarskóla FÍH í fyrravor og hélt þá tónleika með eigin tónsmíðum. Nú stundar Freysteinn framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi.


Hafdís Pálsdóttir lauk meistaranámi í tónlist frá Listaháskólanum sl. vor. Lokaverkefni hennar í náminu var ný kennslubók í píanóleik, "Í fyrsta lagi",  þar sem lögð er sérstök áhersla á spuna og hljómalestur. Bókin er enn á tilraunastigi, en líkur eru á að hún verði gefin út á næsta ári, enda er slíkt kennsluefni fátítt en afar eftirsótt á Íslandi.   Hafdís starfar sem píanókennari í Reykjavík, m.a. við Tónskóla Sigursveins, Lágafellsskóla og Tónsali.


Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir starfar í Reykjavík við harmóníkuleik og –kennslu. Helga hefur að undanförnu starfað við leikhústónlist, m.a. átti hún glæsilega innkomu með harmóníkuna sína í uppfærslu Íslensku óperunnar á La Boheme í fyrravor og ekki síður í uppfærslunni á óperunni Eugene Onegin í Reykjanesbæ sl. haust. Nú leikur hún á harmóníkuna í barnasýningu Þjóðleikhússins Leitinni að jólunum. Helga Kristbjörg kennir við fjóra tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu.


Guðný Harpa Henrýsdóttir lauk nýlega B.Ed.prófi í Faggreinakennslu í grunnskóla frá Háskóla Íslands með tónmennt og leiklist sem sérsvið. Í Tónlistarskóla Ísafjarðar stundaði hún nám á píanó, harmóníku og trompet auk þess sem hún  var einn af máttarstólpum lúðrasveitastarfs í skólanum.


Ingvar Alfreðsson þekkja nú orðið flestir Íslendingar, en hann kemur reglulega fram í sjónvarpsþættinum Útsvari með harmóníkuna sína. Ingvar hefur verið mjög virkur í ýmis konar tónlistarstarfi á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum. Hann stjórnar m.a. Gospelkór Jóns Vídalíns, sem hefur vakið mikla athygli.


Herdís Anna Jónasdóttir sópransöngkona starfar í vetur við Alþjóðlega óperustúdíóið í Zürich. Í fyrravor debúteraði hún við Íslensku óperuna í hlutverki Musettu í La Boheme, nú i nóvember söng hún einsöng á tvennum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og um jólin  syngur hún sópranhlutverkið í Jólaóratóríu Bachs með Mótettukórnum og Alþjóðlegu barokksveitinni í Den Haag á tónleikum í Eldborg, 29. og 30.desember. Hún var nýlega tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum Söngkona ársins.


Skúli Þórðarson (Skúli Mennski) er löngu orðinn þjóðþekktur fyrir bæði texta sína og lög og nú í nóvember kom út nýjasta plata hans Blúsinn í fangið  og heldur hann víða tónleika þessa dagana af því tilefni.

 

Hér hefur aðeins verið drepið á nokkra tónlistarnema frá síðustu árum, en margir fleiri fyrrv.nemendur skólans af yngri kynslóðinni eru meira eða minna virkir í tónlistarlífi landans, systkinin Sólveig Samúelsdóttir söngkona og Samúel Jón Samúelsson básúnuleikari, Hjördís Eva Ólafsdóttir tónlistarkennari á Húsavík,bræðurnir Valdimar og Jóhann Friðgeir Jóhannssynir, Rúna Esradóttir, Bragi Valdimar Skúlason Baggalútur, Haukur S. Magnússon, Kristján Freyr Halldórsson, Björn R.Hjálmarsson trommuleikari, svo einhverjir séu nefndir af handahófi.

 

Á myndinni er Hafdís Pálsdóttir píanóleikari.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is