Fréttabréf

13. september 2019 | Fréttir

Upphaf skólaársins og foreldradagar                    

Skólaárið 2019-2020 fer vel af stað. Talsvert var um nýjar umsóknir og flestir héldu áfram námi sínu við skólann sem er ánægjulegt. Biðlistar hafa myndast á einhver hljóðfæri og forvitnilegt er að fylgjast með þeirri þróun sem verður í hljóðfæravali hverju sinni. Í fyrra var það gítarinn sem var hvað vinsælastur en nú virðist píanóið eiga hug margra. Rúmlega 270 nemendur stunda nám við skólann þetta skólaárið. Við viljum minna á að tilkynna veikindi til skólans en það má gera með því að senda tölvupóst á tonis@tonis.is eða láta viðkomandi kennara vita.

Allar upplýsingar um nám og skóladagatal má finna á heimasíðu skólans www.tonis.is. Skólinn er með Facebook síðu og starfsfólk reynir eftir fremsta megni að birta þar tilkynningar og upplýsingar um viðburði sem tengjast skólastarfinu. Tónlistarskólinn reynir að samræma skóladagatal sitt við grunnskólana á svæðinu og eru frí og starfsdagar oftast í takt. Það getur komið fyrir að kennsla sé í Tónlistarskólanum á þeim dögum sem frí er í skólanum og er það þá auglýst sérstaklega í fréttakerfi eða á Facebook síðu skólans.

Foreldraviðtöl eru skipulögð tvisvar á skólaárinu en þar gefst foreldrum tækifæri til að ræða við tónlistarkennarann um hljóðfæranám nemandans og námsframvinduna. Foreldrar eru þó ávallt velkomnir í skólann og í hljóðfæratíma barna sinna til þess að fylgjast með kennslu. Það eru margir nýir nemendur sem koma í skólann á hverju hausti og nauðsynlegt fyrir þá og kennara barnanna að hittast og fara yfir málin. Þetta á þó einnig og ekki síður við nemendur sem hafa verið lengur í skólanum og því er efnt til foreldradaga í skólanum um næstu mánaðamót. Dagana 23.-27. september verða foreldraviðtöl. Viðtölin fara fram í spilatímum barnanna þessa sömu daga en kennarar senda foreldrum frekari upplýsingar. Farið er yfir stöðuna,  rætt um hvað betur megi fara, hvað sé framundan og hvernig megi móta námið til vors.

Aldrei verður lögð nægilega mikil áhersla á mikilvægi  þess, að foreldrar fylgist vel með náminu og sýni áhuga og stuðning. Það skiptir hreinlega sköpum fyrir námsframvinduna, framfarir nemandans og viðhorf hans til náms

 

Mikilvægar dagsetningar:

  • Gamanmyndahátíð á Flateyri er 19.-22. september
  • Foreldraviðtöl verða 23.-27. september,
  • Vetrarfrí verður dagana 18.-21. október
  • Áætlaðar dagsetningar fyrir jólatónleika eru 12., 13., 16. og 17. desember
  • Síðasti kennsludagur fyrir jólafrí er 19. desember

 

 

 

Gamanmyndahátíð á Flateyri

Mikið verður um að vera á Flateyri daganna 19.-22. september en þá fer fram Gamanmyndahátíð. Þar verður kvikmyndin The Boat frá tímum þöglu myndanna sýnd þann 21. september við lifandi tónlistarflutning nokkurra nemenda og kennara Tónlistarskóla Ísafjarðar. Myndin fjallar um seinheppinn bátasmið og fjölskyldu hans og er meðal þekktustu gamanmynda Buster Keaton. Tónlistin var útsett af Madis Mäekalle fyrir hópinn en nemendurnir semja hluta tónlistarinnar sjálfir í listasmiðju í aðdraganda gamanmyndahátíðarinnar.

Tónfræðikennsla 2019-2020

Kennsla í fyrsta hluta tónfræðinnar, Opus 1, fyrir nemendur í 4. bekk grunnskólans er komin af stað og fer fram á mánudögum og þriðjudögum kl. 13:30 – 14:15. Þeir nemendur sem luku Opus 1 í hóptímum á síðasta skólaári sækja tíma í Hlustun og greiningu einu sinni í viku og verða upplýsingar um tímasetningar sendar til forráðamanna á næstu dögum. Ef einhverjar spurningar vakna varðandi tónfræðinámið er best að hafa samband með því að senda tölvupóst á tonis@tonis.is

Sinfónían heimsótti Ísafjörð

Daganna 5. og 6. september fengu Ísfirðingar heimsókn frá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Fimmtudaginn 5. september lék hljómsveitin fyrir fullu húsi, en hún fékk til liðs við sig Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar og fyrrverandi nemendur skólans, þá Mikolaj Ólaf Frach, píanóleikara og Herdísi Önnu Jónasdóttur, söngkonu. Á föstudaginn var Astrid Lindgren fjölskylduskemmtun þar sem barnakór Tónlistarskóla Ísafjarðar kom fram með hljómsveitinni. Í hlutverki sögumanna voru Pétur Ernir Svavarsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttir. Þau brugðu sér í hin ýmsu gervi, en bæði eru þau fyrrum nemendur skólans og hafa í gegnum tíðina stigið á svið í fjölmörgum uppfærslum á vegum hans. Ótrúlega góð mæting heimamanna sýnir mikilvægan stuðning við allt það hæfileikaríka tónlistarfólk sem kom fram á tónleikunum og Ísafjörður verður áfram spennandi áfangastaður fyrir slíkar heimsóknir. Tónlistarskólinn þakkar hljómsveitinni heimsóknina og eins er öllum þeim þakkað sem lögðu hönd á plóg við undirbúningsvinnu og skipulag heimsóknarinnar. Þetta var ákaflega ánægjulegur endir á vel heppnuðu 70 ára afmælisári Tónlistarskóla Ísafjarðar.