Franskt í hádeginu – blástur í kvöld!

24. júní 2010 | Fréttir

Vegleg dagskrá hátíðarinnar  Við Djúpið heldur áfram í dag eftir sérlega eftirminnilega tónleika í Ísafjarðarkirkju í gærkvöld.

 

Tónleikar í dag:

HÁDEGISTÓNLEIKAR I Kl. 12:15 – í anddyri Grunnskólans (gengið inn frá Aðalstræti)
Ísfirska mezzosópransöngkonan Sólveig Samúelsdóttir heldur hádegistónleika sem bera yfirskriftina „Undir frönsku flaggi“. Þar flytur Sólveig lög sem öll eiga það sameiginlegt að vera á frönsku og eiga rætur sínar að rekja til kvikmynda, leikhúss og óperu. Lögin eru þó ekki öll eftir franska höfunda og sum eru mun þekktari í flutningi á enskri tungu. Allt frá Edith Piaf til hinnar ódælu sígaunastúlku Carmenar spannar sögusviðið allt frá París í Frakklandi til Sevilla á Spáni, en rauði þráðurinn er auðvitað ástin í sínum margbreytilegu myndum. Henni til aðstoðar eru Héctor Eliel Marquez Fornieles á píanó og Helga kr. Guðmundsdóttir á harmóníku.
Þessir tónleikar eru haldnir I samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða.
Aðgangur er ókeypis og tilvalið að hafa með sér nesti.

 

KVÖLDTÓNLEIKAR KL. 20:00 –  í Hömrum kl. 20:00
Blásarakvintettinn Nordic Chamber Soloists heldur tónleika í Hömrum á Ísafirði kl. 20 í kvöld. Kvintettinn samanstendur af ungu tónlistarfólki sem hvert um sig hefur getið sér einstaklega gott orð á sínu sviði og skipað sér í fremstu röð tónlistarmanna. Kvintettinn skipa Brit Halvorsen á flautu, Hans Wolters á óbó, Björn Nyman á klarinett, Audun Halvorsen á fagott og Stefán Jón Bernharðsson á horn.
Á tónleikunum verða leikin verk eftir Samuel Barber, W.A. Mozart, Györgi Ligeti og Carl Nielsen. Miðasala við innganginn.
Einstakt tækifæri til að hlýða á fyrsta flokks blásturshljóðfæraleikara.