Frábær árangur nemenda skólans á svæðistónleikum

15. mars 2010 | Fréttir

 

Ísfirskir tónlistarnemar voru einstaklega fengsælir á svæðistónleikum „Nótunnar“ , Uppskeruhátíð tónlistarskólanna, sem haldnir voru í Hólmavíkurkirkju sl. laugardag. Á tónleikunum voru 24 fjölbreytt tónlistaratriði á ólíkum stigum tónlistarnáms frá 8 tónlistarskólum víðs vegar á Vesturlandi  og Vestfjörðum. Tónleikarnir tókust afar vel og er undravert hversu fjölbreytt og viðamikil starfsemi er í tónlistarskólum landsins. Á tónleikunum komu fram einleikarar á ýmis hljóðfæri en einnig var fjölbreyttur samleikur þ.á.m stór söngsveit barna, harmónikkusveit og lúðrasveit. „Nótan“ er sambland tónleika og keppni, allir þátttakendur fengu viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna og níu atriði fengu sérstakar viðurkenningar fyrir framúrskarandi flutning auk þess sem þrjú atriði fengu verðlaunagrip og voru valin til þátttöku í lokatónleikum „Nótunnar“  í Reykjavík.

 

Frá Tónlistarskóla Ísafjarðar fóru fjögur tónlistaratriði á hátíðina og hlutu þrjú þeirra sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi flutning. Þetta voru þau Patrekur Brimar Viðarsson, gítarleikari  í grunnstigi,  Maksymilian Haraldur Frach fiðluleikari í framhaldsstigi og Hanna Lára Jóhannsdóttir og Kristín Harpa Jónsdóttir í miðstigi, en þær léku saman á tvö píanó. Þær fengu einnig verðlaunagrip og munu koma fram á hátíðartónleikum  „Nótunnar“ í Langholtskirkju 27.mars nk.

Skólalúðrasveitin lék einnig á svæðistónleikunum við frábærar undirtektir en einnig notaði hún ferðina til að koma fram í stóru kaffisamsæti sem haldið var þennan dag í félagsheimilinu á Hólmavík í tilefni Strandagöngunnar. Var gerður mjög góður rómur að leik sveitarinnar.

Tónlistarskólinn er afar stoltur af frábærri frammistöðu allra þessara nemenda og óskar þeim, foreldrum þeirra og kennurum innilega til hamngju með árangurinn.