Dagur tónlistarskólanna haldinn hátíðlegur

18. febrúar 2015 | Fréttir

Í febrúar ár hvert er Dagur tónlistarskólanna haldinn hátíðlegur um allt land til að vekja athygli almennings og fjölmiðla á því mikla og metnaðarfulla starfi sem fram fer í tónlistarskólum.

 

Tónlistarskóli Ísafjarðar blæs til þrennra tónleika af þessu tilefni.
Markmiðið er að kynna hið viðamikla starf sem fram fer í Tónlistarskóla Ísafjarðar en um leið að kennarar og nemendur skemmti sér og öðrum með fjölbreyttum tónlistarflutningi.  Áhersla er lögð á að sem flestir nemendur komi fram, en vonandi mæta líka þeir nemendur sem ekki spila núna á tónleikana og njóta þeirra með fjölskyldum sínum.


Tvennir tónleikar verða í Hömrum:
Miðsvetrartónleikar I: þriðjudaginn 24.febrúar kl.19:30 og
Miðsvetrartónleikar II: miðvikudaginn 25.febrúar kl.19:30
– aðalæfingar kl. 15.30 sömu daga– í Hömrum –
Þarna koma fram á annað hundrað nemendur á ýmis hljóðfæri. Á dagskránni kennir margra ólíkra grasa, dúettar, tríó, samsöngur, gítarsveitir, forskólabörnin syngja o.s.frv.

 

Þriðju tónleikarnir verða í Ísafjarðarkirkju kl.14:00 laugardaginn 28.febrúar,
aðalæfing föstudaginn 27.febrúar kl.15.30 – einnig í kirkjunni.
Tónleikarnir verða einkum á léttu nótunum og þar koma fram stærri hópar, strengjasveit skólans, þrjár lúðrasveitir, Samfésatriði Grunnskólans á Ísafirði o.fl.  Loks kemur Stórhljómsveitin „Ísófónía“  fram á tónleikunum, en hún var eins og nokkur undanfarin ár sett saman sérstaklega af þessu tilefni og er skipuð fjölda ungra hljóðfæraleikara á öll möguleg hljóðfæri auk þess sem kórar skólans syngja með. Stjórnandi Ísófóníunnar er Madis Mäekalle en hann nýtur ríkulegrar aðstoðar annarra kennara skólans. Tónverkin sem Ísófónían flytur eru We Will Rock You, bítlalagið Can´t Buy Me Love,  og loks Thank you for The Music, sem í íslenskri þýðingu Ólínu Þorvarðardóttur heitir:  Á vængjum söngsins.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is