Dagur íslenskrar tungu í Hömrum

16. nóvember 2009 | Fréttir

Nemendur í Grunnskólanum á Ísafirði fagna að vanda degi íslenskrar tungu í dag með dagskrá í Hömrum. Dregið verður í Smásagna- og ljóðahappdrætti skólans auk þess sem Stóra upplestrarkeppnin verður formlega sett. Á hverju hausti spreyta nemendur Grunnskólans á Ísafirði sig á ljóða- og smásagnaskrifum. Fyrstu árin var um samkeppni að ræða en fyrir tveimur árum var fyrirkomulaginu breytt þannig að nöfn allra þátttakenda fara í pott og dregið er um vinningshafa. Er það von aðstandenda verkefnisins að það hvetji börnin til bóklesturs um leið og það vekur áhuga þeirra á að spreyta sig við ritsmíðar. Afrakstur erfiðisins hefur verið gefinn út á bók síðastliðin sjö ár sem oftar en ekki hefur selst upp í Bókhlöðunni-Pennanum.

Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, þann 16. nóvember, síðan árið 1996 samkvæmt tillögu menntamálaráðherra. Í fyrra var þessum degi bætt við íslensku fánadagana.