Bergþór Pálsson skólastjóri

1. ágúst 2022 | Fréttir

Bergþór Pálsson skólastjóri

Bergþór Pálsson skólastjóri

Bergþór Pálsson skólastjóri hefur búið í tíu ár samtals í útlöndum. Í Frakklandi var hann skiptinemi, í Bandaríkjunum stundaði hann tónlistarnám, í Englandi leiklistarnám og í Þýskalandi starfaði hann sem óperusöngvari. En honum líður best á Ísafirði, enda elskar hann fjöllin og náttúruna í kring. „Allt í kringum mig er líka ótrúlega frábært starfsfólk og fullt af góðum nemendum sem koma stundum inn á skrifstofu og spyrja mig spjörunum úr, t.d. koma stundum litlar vinkonur sem spyrja hvort það sé möguleiki að ég sé giftur honum Albert, en sum syngja fyrir mig, t.d. „Við erum í karlaklefanum, húrra, húrra!“ en ég kom reyndar fram í auglýsingu þar sem þetta lag var sungið.“ Þetta finnst Bergþóri rosalega skemmtilegt.

Bergþór ólst upp í Reykjavík, í Hlíðunum, fyrir ofan stóru Lönguhlíðarblokkina, þar sem er alltaf verið að tala um að setja Miklubrautina í stokk. Þetta var eiginlega í fornöld, því að hann lék sér oft við götuna við að búa til stíflur og vegi, enda var gatan ekki malbikuð og fyrsta árið var ekki einu sinni til ísskápur. Mamma hans sendi hann oft út í búð að kaupa eitt fiskflak sem kostaði 10 krónur og mjólkurpott, sem hún setti út á svalir til að mjólkin súrnaði ekki.

Svo æfði hann á fiðlu í mörg ár. Skemmtilegast fannst honum að fá að spila lag og syngja aðra rödd um leið, sem sagt dúett með sjálfum sér. Þetta var upphafið á söngferli hans, en löngu seinna fór hann í söngnám í Ameríku og söng svo í fáránlega mörgum óperum.

Bergþór hefur verið með í mjöööög mörgum uppfærslum hjá Íslensku óperunni og sungið um allt land, bæði einn og líka sem einsöngvari með kórum og öðrum söngvurum. Síðustu ár hefur hann sungið með því íslenska strákabandi sem hæstan hefur meðalaldurinn; Sætabrauðsdrengjunum. Þeir eru miklir æringjar og tónleikar þeirra eru stundum óttalegur vitleysisgangur, en þeir syngja mjög vel.

Bergþór er líka mikið náttúrubarn og prjónar stundum á barnabörnin sín. Nú er hann að prjóna þriðju peysuna á yngsta barnabarnið sitt, hann Bjart, sem er eins og hálfs árs. Bjartur vex nefnilega jafnóðum upp úr peysunum sínum.

Það er með Bergþór eins og aðra óperusöngvara, að hann hefur mikinn áhuga á góðum mat – bæði að elda matinn (hann er þrusukokkur) en ekki síður að borða hann. Sjá hér: Alberteldar.is 

Bergþór setur nýja merkingu í Hömrum