Alþjóðlegt háskólanámskeið tónlistarnema á Suðureyri

24. ágúst 2013 | Fréttir

Þessa dagana stendur yfir alþjóðlegt sumarnámskeið meistaranema við Listaháskóla Íslands og fleiri skóla í Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi á Suðureyri.

Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf eða New Audiences and Innovative Practice (NAIP) er samevrópskt meistaranám en eftirtaldir tónlistarháskólar auk Listaháskóla Íslands standa að náminu: Konunglegi tónlistarháskólinn í Haag, Prince Claus Conservatory í Groningen og Konunglegi tónlistarháskólinn í Stokkhólmi. Aðrir þátttakendur á sumarnámskeiðinu eru Sibelius Academy í Helsinki, Metropolia-háskólinn í Helsinki, Tónlistarháskólinn í Osló, Minnesota University og Guildhall School of Music and Drama í London.

Um 30 nemendur munu sækja námskeiðið og njóta leiðsagnar leiðbeinenda frá ofangreindum skólum. Meðal leiðbeinenda má nefna Peter Renshaw, sem er mikilsvirtur brautryðjandi og frumkvöðull á sviði sí- og endurmenntunar tónlistarmanna. Peter var skólastjóri hins virta Yehudi Menuhin-tónlistarskóla í Bretlandi í um áratug áður en hann tók við stjórn Rannsóknar- og þróunardeildar Guildhall-tónlistarháskólans árið 1984. Hann gegndi þeirri stöðu allt til ársins 2001 er hann lét af störfum vegna aldurs. Annar þekktur kennnari á námskeiðinu er  Rineke Smilde, prófessor í símenntun tónlistarmanna við Tónlistarháskólann í Groningen í Hollandi. Þau Peter og Rineke hafa bæði áður sótt Vestfirði heim. Hún heimsótti Ísafjörð fyrir nokkrum árum vegna tengsla Tónlistarskóla Ísafjarðar við NAIP verkefnið sem tónlistarskólinn er aðili að. Peter Renshaw var gestur á fundi tónlistarskólastjóra á Ísafirði fyrir um 25 árum síðan og kynnti þá fyrir skólastjórunum byltingarkenndar hugmyndir sínar um tónlistarnám, sem sumar hverjar hafa síðan orðið að veruleika.

Tilgangur námskeiðsins á Suðureyri er að nemendur kynnist hugmyndafræði og grunnþáttum námsins, m.a. í gegnum skapandi hópavinnu, auk þess að  vinna verkefni sem tengjast samfélaginu á Suðureyri.

Eflaust á þessi fjölmenni og glæsilegi hópur eftir að setja svip á umhverfi itt hér fyrir vestan á næstu dögum en þau dvelja hér fram yfir næstu helgi. Umsjónarmaður verkefnisins af hálfu Listaháskóla Íslands er Sigurður halldórsson sellóleikari en hann var einmitt einn af fyrstu nemendum Peters Renshaw í Guildhall á sínum tíma.

 

Nánari upplýsingar um meistaranámið Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf er að finna á heimasíðunni http://musicmaster.eu/

 

Myndin er af Peter Renshaw.