Herdís Anna Jónasdóttir, óperusöngkona

4. mars 2015 | Tónlistarfólk á eða frá Ísafirði og nágrenni

Herdís Anna Jónasdóttir er fædd og uppalin á Ísafirði, þar sem hún lagði stund á fiðlu-, píanó- og söngnám. Að loknu stúdentsprófi hélt söngnámið áfram við Listaháskóla Íslands hvaðan hún lauk B.Mus prófi vorið 2006 undir handleiðslu Elísabetar Erlingsdóttur. Þá lá leiðin til Berlínar þar sem hún stundaði nám við Hanns Eisler Tónlistarháskólann hjá Önnu Samuil, Brendu Mitchell og Juliu Varady. Lauk hún þaðan Diplom-prófi 2010 og Konzertexamen-prófi þrem árum síðar.
Á námsárunum í Berlín söng Herdís ýmis óperuhlutverk m.a. í Staatsoper Unter den Linden, Komische Oper og Neuköllner Oper en starfaði síðan eitt ár í hinu virta Óperustúdíói við Óperuhúsið í Zürich þar sem hún tók þátt í mörgum óperuuppfærslum. Hún söng hlutverk Musettu í uppfærslu Íslensku óperunnar á La Boheme árið 2012 en frá haustinu 2014 hefur hún verið  fastráðin við Ríkisóperuna í Saarbrücken, Þýskalandi. Meðal óperuhlutverka Herdísar eru Adele (Leðurblakan), Zerlina (Don Giovanni), Drottningin frá Schemacha (Gullni haninn), Mabel (Pirates of Penzance), Sophie (Werther), Nannetta (Falstaff), Oscar (Grímudansleikur), Romilda (Xerxes) og Musetta (La Bohème). Einnig hefur hún margsinnis komið fram á tónleikum, s.s. með Kammersveit Reykjavíkur, á Carl-Orff tónlistarhátíðinni, með Saarländisches Staatsorchester og með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þá hefur Herdís starfað með hljómsveitarstjórum á borð við Fabio Luisi, Patrick Lange, Ivor Bolton og Jochen Rieder.

Herdís hefur hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar, m.a. var hún tilnefnd til Ísl ensku tónlistarverðlaunanna í flokkunum Bjartasta vonin árið 2010 og Söngkona ársins 2012.Sjá heimasíðu Herdísar: http://herdisanna.com/

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is