Halldór Smárason, tónskáld, píanóleikari m.m.

5. nóvember 2009 | Tónlistarfólk á eða frá Ísafirði og nágrenni

Sjá nánar á heimasíðu Halldórs:  http://www.halldorsmarason.com/

 

Halldór Smárason stundaði nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar frá haustinu 1996 til vors 2009. Fyrsta veturinn lærði hann á píanó hjá Björk Sigurðardóttur en haustið eftir tók Sigríður Ragnarsdóttir við kennslunni og var aðalkennari hans eftir það. Halldór lagði stund á bóklegar greinar, tónfræði, hljómfræði og tónheyrn og voru kennarar hans í þeim greinum Jónas Tómasson og Iwona Kutyla. Halldór leikur einnig á gítar, harmóníku og fleiri hljóðfæri án þess að hafa hlotið nokkra formlega tilsögn..

 
Halldór hefur verið virkur þátttakandi í fjölda tónlistarnámskeiða, m.a. hjá píanóleikurunum Halldóri Haraldssyni, Peter Maté, Ilonu Lucz, Davíð Þór Jónssyni og Agnari Má Magnússyni. Þá hefur hann tekið þátt í námskeiðum í tónlistarmiðlun á vegum LHÍ á Ísafirði. Halldór hélt námskeið í hljómborðsleik fyrir lengra komna píanónemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar vorið 2008.
 
Halldór hefur alltaf verið afar virkur í félagslífi og tónleikahaldi skólans og verið fulltrúi skólans og Ísafjarðarbæjar við ótal tækifæri, bæði einn og með öðrum. Hann tók þátt í píanókeppni EPTA haustið 2003.
Halldór gefur sig jöfnum höndum að klassískri tónlist, djassi, poppi, gospel o.s.frv.
Hann var tónlistarstjóri í þremur söngleikjauppfærslum Menntaskólans á Ísafirði, síðast Rocky Horror Picture Show vorið 2008. Halldór annaðist margsinnis tónlistarstjórn á söngkeppnum MÍ og vorið 2009 varð hann ásamt félaga sinum í 2. öðru sæti í Söngkeppni framhaldsskólanna.
Árið 2001 stofnaði hann ásamt fleirum hljómsveitina Apollo og hefur sú hljómsveit síðan starfað með miklum blóma. Þá var hann verið undirleikari og aðstoðarkórstjóri Gospelkórs Vestfjarða frá árinu 2004 til 2009.
Halldór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði vorið 2009 með hæstu einkunn.  Sama vor lauk hann framhaldsprófi í píanóleik frá Tónlistarskóla Ísafjarðar með ágætiseinkunn og hélt glæsilega einleikstónleika í Hömrum 21. maí. 
Halldór hélt tónlistarnámi sínu áfram við Listaháskóla Íslands með tónsmíðar sem aðalgrein og voru aðalkennarr hans þar Tryggvi M. Baldvinsson og Atli Ingólfsson. Hann lauk bakkalárgráðu frá LHÍ vorið 2012 og mastersnámi í tónsmíðum við Manhattan School of Music vorið 2014, þá sem Fulbright-styrkþegi, undir handleiðslu Dr. Reiko Füting.
Halldór hefur m.a. unnið með Ungfóníu, Tríó Reykjavíkur, Duo Harpverk og MSM Symphony, og hlaut fyrstu verðlaun í tónsmíðakeppninni Manhattan Prize. Þá hefur hann verið staðartónskáld á tónlistarhátíðunum Við Djúpið, UNM og Podium Festival. Í gegnum árin hefur Halldór unnið margskonar útsetningarverkefni, komið fram við hin ýmsu tilefni og leikið inn á hljómdiska.