Davíð Sighvatsson

19. maí 2015 | Tónlistarfólk á eða frá Ísafirði og nágrenni

DAVÍÐ SIGHVATSSON
hefur stundað nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar frá haustinu 2002 að tveim skólaárum undanskildum. Fyrsta hljóðfærið var harmóníka í einn vetur hjá Vadim Fyodorov, svo tók gítarinn við í eitt skólaár hjá Olavi Körre á Þingeyri. Haustið 2005 hóf Davíð nám á píanó hjá ömmu sinni Elínu Jónsdóttur og lauk grunnprófi vorið 2008.  Eftir árshlé á tónlistarnáminu hóf Davíð nám á saxófón og lauk 2.stigi á það hljóðfæri hjá Madis Mäekalle. Píanóið tók svo aftur yfirhöndina haustið 2010 og hefur Beáta Joó kennt honum á píanó allar götur síðan, en í desember 2012 lauk hann miðprófi á píanóið. Frá haustinu 2013 hefur hann einnig stundað söngnám við skólann undir leiðsögn Sigrúnar Pálmadóttur og Ingunnar Óskar Sturludóttur. Hann hefur tekið þátt í ýmsum námskeiðum á vegum skólans s.s. „Skapandi tónlistarmiðlun“  nokkrum sinnum (í samvinnu við Listaháskóla Íslands), píanónámskeið o.fl. Þá lauk hann miðprófi í tónfræðigreinum í fyrra og hefur lagt sérstaka ástund á þær greinar undanfarið ár.
Davíð hefur jafnan verið mjög virkur í tónleikahaldi skólans og komið fram á ótal samkomum og tónleikum innan og utan skólans. Hann var í Píanóhljómsveit skólans,Krummahópnum svonefnda, sem fékk sérstök verðlaun Tónlistarsafns Íslands á NÓTUNNI 2013 fyrir besta frumsamda atriðið byggt á tónlistararfinum. Þá hefur hann tekið þátt í lúðrasveitarstarfi skólans, sungið með Skólakór Menntaskólans á Ísafirði og nú syngur hann með Karlakórnum Erni og hefur jafnvel gripið í tónsprotann þar á bæ.
Vorið 2014 lauk Davíð stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði eftir þriggja ára nám. Þar var hann mjög virkur félagslega, var fulltrúi skólans í Gettu betur og Morfís, auk þess sem hann tók þátt í leiksýningum skólans bæði sem leikari og söngvari.
Langt er síðan Davíð fór að fást við lagasmíðar sem hafa verið aðaláhugamál hans síðustu árin. Hann hefur leikið frumsamin lög sín bæði á tónleikum skólans og víðar. Hann var valinn í undanúrslit sjónvarpsþáttarins Ísland Got Talent á þessu ári, þar sem hann flutti eigið lag. Davíð hefur nú fengið inngöngu í tónlistardeild Listaháskóla Íslands þar sem hann hyggst leggja stund á tónsmíðar næsta vetur.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur