Beáta Joó, kórstjóri, píanóleikari o.fl.

20. mars 2009 | Tónlistarfólk á eða frá Ísafirði og nágrenni

Beáta Joó er fædd í borginni Szeged í Ungverjalandi þar sem hún stundaði tónlistarnám frá 4 ára aldri. Hún stundaði píanónám við Franz-Liszt Konservatorium í Szeged, en árið 1981 hélt hún til náms í kórstjórn og tónfræðigreinum við Franz Liszt tónlistarakademíuna í Búdapest og lauk þaðan prófi vorið 1986. Sama haust flutti hún til Íslands og hefur síðan búið á Ísafirði þar sem aðalstarf hennar er kennsla við Tónlistarskóla Ísafjarðar, einkum píanókennsla og meðleikur.

 

Beata var lengi stjórnandi barnakórs og stúlknakórs Tónlistarskólans og Kórs Ísafjarðarkirkju, þar sem hún var organisti á árunum 1986-1994. Einnig var hún organisti í Súðavík í allmörg ár. Hún stjórnaði Sunnukórnum um árabil en er nú stjórnandi Karlakórsins Ernis. Þá hefur hún stjórnað öllum verkefnum Hátíðakórs Tónlistarskóla Ísafjarðar frá upphafi, Messíasi, Sálumessu Moazrts og Bach-kantötum. Beáta var tónlistarstjóri í uppfærslum Tónlistarskóla Ísafjarðar og Litla leikklúbbsins á söngleikjunum Eldmærin 1988 og Söngvaseið 2003.

 

Beáta hefur margsinnis komið fram á tónleikum sem meðleikari söngvara og hljóðfæraleikara og í kammertónlist.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is