Helga Margrét Marzellíusardóttir

20. mars 2009 | Nemandinn

hefur stundað nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar allt frá haustinu 1993. Fyrstu tvö árin lagði hún einkum stund á fiðlunám, en haustið 1994 hóf hún nám á píanó, sem var aðalnámsgrein hennar við skólann allt til ársins 2005, oftast undir leiðsögn Sigríðar Ragnarsdóttur. Hún lauk miðprófi í píanóleik vorið 2004. Helga Margrét byrjaði í söngnámi haustið 2002 meðfram píanónáminu og síðustu árin hefur söngur verið aðalnámsgrein hennar við skólann. Helga Margrét lauk miðprófi í söng vorið 2007. Söngkennari hennar hefur frá upphafi verið Ingunn Ósk Sturludóttir. .

 
Helga Margrét hefur lagt stund á bóklegar greinar, tónfræði, hljómfræði og tónheyrn og hafa kennarar hennar í þeim greinum verið Jónas Tómasson, Iwona Kutyla og Janusz Frach.
 
Helga Margrét hefur alla tíð tekið virkan þátt í tónleikahaldi innan og utan skólans og verið fulltrúi hans við fjölmörg tækifæri. Hún hefur um árabil sungið með kórum skólans og fleiri kórum á svæðinu. Þá hefur hún oft komið fram fyrir hönd Menntaskólans á Ísafirði, var fulltrúi hans í Söngkeppni framhaldsskólanna vorið 2008 og æfði skemmtikórinn Drengjakór MÍ í nokkur ár. Í fyrrahaust kom hún fram í ABBA-sýningu, sem naut ákaflega mikilla vinsælda.
Sl. tvö ár hefur hún tekið að sér forfallakennslu í Tónlistarskóla Ísafjarðar, einkum forskólakennslu. Þá hefur hún fengist nokkuð við lagasmíðar.
 
Helga Margrét stefnir á framhaldsnám í söng og tónlist næsta vetur og óskar Tónlistarskóli Ísafjarðar henni alls velfarnaðar á nýjum vettvangi um leið og hann þakkar henni ánægjulega samfylgd á undanförnum árum.
 
 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is