Magnea og Kristinn Örn – Tónleikar 12. mars FRESTAÐ V/VEIKINDA

1. mars 2023 | Fréttir, Hamrar, Tónlistarfélagið

Magnea Tómasdóttir og Kristinn Örn Kristinsson

Magnea Tómasdóttir og Kristinn Örn Kristinsson á tónleikum Tónlistarfélagsins 12. mars í Hömrum kl. 20. FRESTAÐ VEGNA VEIKINDA

Á efnisskránni verða eingöngu lög eftir Jón Ásgeirsson en eins og flestir vita er Ísafjörður hans fæðingarbær.

Ljóð eftir Jón Óskar

Hafljóð
Augu landsins
Stúlkan og hafið
Skáldið

Svartálfadans ljóðin eru eftir Stefán Hörð Grímsson

Þegar undir skörðum mána
Steinninn
Skammdegisvísa
Nú er garðstígurinn þögull
Stríð
Vetrardagur
Eirlitir dagar
Halló litli villikötturinn minn
Kvöldvísur um sumarmál
Svartálfadans

ÖLL LJÓÐIN ERU HÉR

Tónleikarnir eru u.þ.b. 50 mín langir án hlés.
Vinsamlega takið hljóð af símum.
Ykkur er velkomið að taka myndir af listafólkinu en best færi á að gera það í lokin.
Eftir tónleikana verður boðið upp á léttar veitingar.

Aðgangseyrir: 3.500.- Frítt fyrir nemendur Tónlistarskólans.

Magnea Tómasdóttir

Magnea nam klassískan söng í Tónlistarskóla Kópavogs og Tónlistarskóla Seltjarnarnes. Framhaldsnám sótti hún í Trinty College of music í London.  Á árunum 1997-1999 var Magnea við Óperustúdíóið í Köln og leikárið 1999-2000 var hún fastráðin söngkona við sama hús og söng hin ýmsu óperuhlutverk m.a. Fyrstu dömu í Töfraflautunni og Gerhilde í Valkyrjunum eftir Wagner.  Magnea fór með hlutverk Sentu í Hollendingnum fljúgandi í Þjóðleikhúsinu á Listahátíð í Reykjavík vorið 2002. Einnig hefur hún kom fram sem einsöngvari við ýmis tækifæri á Íslandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Hollandi, Ítalíu og Englandi.  

Árið 2003 gaf Smekkleysa út geisadiskinn Allt svo verði til dýrðar þér, en þar fluttu Magnea og Guðmundur Sigurðsson organisti þjóðlög við sálmavers m.a. Passíusálma Hallgríms Péturssonar.

Magnea er stundakennari í Listaháskóla Íslands á námskeiðunum Music and dementia og Leading and guiding.  Magnea hefur á undanförnum misserum unnið í tónlistarstarfi á hjúkrunarheimilum og dagþjálfunum fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma.

Kristinn Örn Kristinsson

Kristinn Örn lauk námi við Tónlistarskólann á Akureyri og stundaði síðan nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Southern Illinois University og St. Louis Conservatory of Music í Bandaríkjunum. Meðal helstu kennara hans má nefna Philip Jenkins, Margréti Eiríksdóttur, Ruth Slenczynska og Joseph Kalichstein.

Að loknu námi kenndi Kristinn Örn við Tónlistarskólann á Akureyri um átta ára skeið, en tók við skólastjórn Tónlistarskóla Íslenska Suzukisambandsins í Reykjavík árið 1990. Árið 1998 stofnaði hann ásamt fleirum Allegro Suzukitónlistarskólann og hefur starfað þar síðan ásamt því að vera meðleikari við Söngskólann í Reykjavík, stundakennari við Listaháskóla Íslands og nú síðast einnig kennari við MÍT.

Kristinn Örn hefur hlotið starfslaun listamanna, gefið út hljómdiskinn Píanólögin okkar og bókina Suzuki tónlistaruppeldi. Hann hefur komið víða fram á tónleikum með ýmsum hljóðfæraleikurum og söngvurum, leikið inn á hljómdiska og tekið upp fyrir útvarp. Hann hefur réttindi til að þjálfa Suzuki píanókennara og hefur farið víða til kennslu og prófdæminga.

Jón Ásgeirsson

Jón Ásgeirsson er fæddur á Ísafirði 1928. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem aðalkennarar hans voru Árni Kristjánsson, Jón Þórarinsson og dr. Victor Urbancic. Að námi loknu hérlendis stundaði hann framhaldsnám við Konunglega skoska háskólann í Glasgow og síðar Guildhall School of Music í London.

Fyrir utan tónsmiðastörf starfaði Jón lengi við kennslu, lengst af við Kennaraháskóla Íslands og Söngskólann í Reykjavík.  Hann stjórnað einnig kórum, Liljukórnum, Karlakór Keflavíkur og Fóstbræðrum, lúðrasveitum og Sinfóníuhljómsveit Íslands í eigin verkum.

Hann var tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins um árabil, frá 1970.

Jón Ásgeirsson var skipaður prófessor í tónlist við Kennaraháskóla Íslands árið 1996, og varð þar með fyrsti prófessorinn í listgreinum á Íslandi.  Árið 2008 veitti Kennaraháskóli Íslands Jóni doktorsnafnbót í heiðursskyni fyrir mikilvægt framlag hans til kennaramenntunar á sviði tónlistar og tónlistaruppeldis í skólum landsins.

Jón hefur samið fjölda tónverka en meðal kammerverka má nefna þrjá strengjakvartetta, blásarakvintetta, oktett fyrir blásara og Sjöstrengjaljóð samið 1968.  Smærri hljóðfæra tónverk má nefna 10 þjóðlög og sónata fyrir sóló gítar, píanóæfingar og stutt orgelverk.

Konsertarnir eru 6, sellókonsert, hornkonsert, klarinettkonsert, trompettkonsert, píanókonsert, flautukonsert sem frumfluttur verður í janúar 2019 af Sinfóníuhljómsveit Íslands, einleikari Freyr Sigurjónsson og ófullgerður fiðlukonsert.   Ballettinn Blindisleikur sýndur í Þjóðleikhúsin 1979.

Jón hefur sótti í verkum sínum, Þjóðvísu, Lilju og Fornum dönsum efnivið til íslenskra þjóðlaga, en eftir hann liggja ótal þjóðlagaútsetningar ýmist fyrir hljóðfærahópa eða kóra, og hafa kórútsetningar hans öðlast sérstakan sess meðal íslenskra kórbókmennta.  Meðal stærri kórverka má nefna Tímann og Vatnið við ljóð Steins Steinarrs, Á þessari rímlausu skeggjöld við ljóð Jóhannesar úr Kötlum og sálmalög við alla Passíusálma Hallgríms Pétursson, auk fjölda smærri kórverka.

Líkalega er Jón einna þekktast fyrir söngtónlist sína en þar er að finna bæði stór og smá verk. Óperurnar eru orðnar 4 og sú fimmta í vinnslu.  Þrymskviða var frumflutt 1974 í Þjóðleikhúsinu og var fyrsta íslenska óperan í fullri lengd, buff-óperan Eilífur og Úlfhildur fyrir karlakór og einsöngvara, Galdra – Loftur frumflutt 1996,  Möttulssaga enn ekki verið flutt og óperan Rósa sem liggur á vinnuborðinu.   Þess má geta að Jón hefur unnið alla texta og leikgerð fyrir óperurnar sjálfur.

Einsöngslög Jóns eru orðin um 90 talsins.  Þar er að finna margar söngperlur eins og Hjá lygnri móði, Vor hinsti dagur og Maístjarnan, svo kölluð Laxness lög við ljóð Halldórs Laxness og Augun mín og augun þín, einnig sönglagaflokkinn Svartálfadans við ljóð eftir Stefán Hörð Grímsson og fyrstu sönglögin sem samin eru í kringum 1947.

Jón hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín.  Hann hlaut tvisvar menningarverðlaun DV, árið 1979 fyrir ballettin Blindisleik og árið 1997 fyrir óperuna Galdra – Loft.  Hann var útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkur 1996 og sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu lista og menningar 2001. Árið 2019 var hann heiðursverðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna og nú í ár hlaut hann heiðurslaun listamanna.

  

Jón Óskar

Jón Óskar fæddist á Akranesi 18. júlí 1921.  Foreldrar hans voru Ásmundur Jónsson sjómaður, síðar rafvirki, og Sigurlaug Einarsdóttir húsmóðir.  Jón var næstyngstur af fimm systkinum.  Hann stundaði nám í Héraðsskólanum í Reykholti í Borgarfirði og Flensborgarskóla í Hafnarfirði.  Gagnfræðapróf tók hann utan skóla frá Menntaskólanum í Reykjavík 1941.  Hann var í Tónlistarskólanum í Reykjavík í fimm ár.   

Fyrsta bók Jóns var smásagnasafnið „Mitt andlit og þitt“, sem út kom 1952.  Eftir hann hafa komið út ellefu ljóðabækur, frumsamdar og þýddar, og má þar nefna bækurnar „Nóttin á herðum okkar“ 1958 og „Söngur í næsta húsi“ 1966, en síðasta ljóðabók hans var „Hvar eru strætisvagnarnir?“ 1995. Einnig komu út eftir hann ein skáldsaga, tvö smásagnasöfn, sex bindi af minningum um líf skálda og listamanna í Reykjavík, tvær ferðabækur, ritgerðasafn og þrjár bækur byggðar á sagnfræðilegum rannsóknum.  Auk þess þýddi hann skáldsögur og leikrit, meðal annars eftir Albert Camus, Eugene Ionesco og Simone de Beauvoir.   Jón Óskar lést í Reykjavík 20. október 1998.

Stefán Hörður Grímsson

Stefán Hörður Grímsson fæddist í Hafnarfirði 31. mars 1919. Hann nam við Laugarvatnsskóla og hjá Námsflokkum Reykjavíkur. Hann vann við landbúnaðarstörf og sjómennsku, var sundkennari og næturvörður.

Fyrsta ljóðabók Stefáns Harðar, Glugginn snýr í norður (1946), þykir dæmigert byrjendaverk þar sem höfundur fer troðnar slóðir í formi og tjáningarmáta og fetar í fótspor eldri skálda. Við annan tón kveður í annarri ljóðabók hans, Svartálfadansi (1951). Bókin vakti mikla athygli og aðdáun og þar þótti Stefán Hörður stíga fram sem fullmótaður módernisti og atómskáld. Nítján ár líða fram að næstu ljóðabók hans, Hliðin á sléttunni (1970). Aftur líða ellefu ár þar til Farvegir (1981) kemur út. Árið 1987 sendi hann síðan frá sér ljóðabókina Tengsl og var hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1989. Önnur ljóðabók kom út tveimur árum síðar, Yfir heiðan morgun. Fyrir hana fékk hann íslensku bókmenntaverðlaunin fyrstur manna. Ljóð Stefáns Harðar hafa verið þýdd á önnur tungumál og komið út í ljóðasöfnum.  Stefán Hörður lést í Reykjavík 18. september 2002, 83 ára að aldri.

Magnea Tómasdóttir

Kristinn Örn Kristinsson

ÖLL LJÓÐIN ERU HÉR

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is